Lærisveinar Alfreðs töpuðu með minnsta mun

Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í Tókýó.
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í Tókýó. AFP

Þýska karla­landsliðið í hand­knatt­leik, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, mátti þola naumt tap, 30:29, gegn Frökkum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Þjóðverjar eru þar með aðeins búnir að vinna einn af þremur leikjum sínum til þessa í keppninni.

Frakkar hófu leikinn af miklu meiri krafti og náðu fimm marka forystu snemma, 7:2. Klaufalegir Þjóðverjar náðu að minnka muninn í 9:7 áður en Frakkar tóku sig til og skoruðu fimm mörk í röð, staðan orðin 14:7 en þannig var munurinn mestur.

Sitthvorumegin við hálfleikinn áttu lærisveinar Alfreðs svo 9:2-kafla og komust í forystu í fyrsta sinn, 19:18, en eftir það var leikurinn hnífjafn. Frakkar unnu svo með minnsta mögulega mun. Dika Mem, leikmaður Barcelona, skoraði sex mörk fyrir Frakka en Timo Kastening skoraði sjö fyrir Þjóðverja.

Frakkar eru öruggir áfram í 8-liða úrslitin enda búnir að vinna alla þrjá leiki sína til þessa. Þjóðverjar eiga eftir sterkt lið Noregs og svo Brasilíu. Allar líkur eru á því að Brasilía og Argentína sitji eftir í A-riðlinum en Þjóðverjar eiga aftur á móti á hættu að mæta ógnarsterkum liðum Dana eða Svía strax í fjórðungsúrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert