Frá evrópsku stórveldi til Akureyrar

Þórsarar eru komnir með nýjan þjálfara.
Þórsarar eru komnir með nýjan þjálfara. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleiksdeild Þórs á Akureyri hefur gengið frá samningi við Stevce Alusovski frá Norður-Makedóníu og mun hann þjálfa kalalið félagsins í handbolta á næstu leiktíð. Vefmiðillinn Akureyri.net greindi frá í dag.

Alusovski þjálfaði síðast stórlið Vardar frá Skopje, en liðið varð Evrópumeistari 2017 og 2019. Undir stjórn Alusovski varð Vardar deildar- og bikarmeistari í Norður-Makedóníu á síðustu leiktíð en þrátt fyrir það var Alusovski látinn taka pokann sinn. Gamla kempan Veselin Vujovic tók við þjálfun Vardar af Alusovski.

Alusovski lék með Vardar á sínum tíma og vann 13 meistaratitla og 11 bikarmeistaratitla með liðinu. Þá lék hann yfir 200 landsleiki fyrir þjóð sína og skoraði 900 mörk. Hann varð í 11. sæti á HM 2009 og 5. sæti á EM 2010 með Norður-Makedóníu.

Landslagið verður vægast sagt breytt fyrir Alusovski því hann fer úr því að þjálfa stórveldi í Evrópu og í það þjálfa Þór í 1. deildinni, en Þórsarar féllu úr efstu deild á síðustu leiktíð eftir aðeins eitt ár í deild þeirra bestu.

Þór vann aðeins fjóra leiki af 22 á síðustu leiktíð og fékk níu stig. Að lokum var liðið fimm stigum frá því að halda sæti sínu í efstu deild.

mbl.is