„Gáfum tóninn strax í byrjun“

Ágúst leggur á ráðin með leikmönnum í kvöld.
Ágúst leggur á ráðin með leikmönnum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna, var augljóslega mjög sáttur með sigur sinna kvenna sem tryggðu sér sæti í undanúrslitum Coca Cola bikars kvenna í kvöld, er liðið lagði ÍBV að velli í Vestmannaeyjum.

Valskonur„Mér fannst við spila frábæran varnarleik, sérstaklega í fyrri hálfleik og plúsuðum á Sunnu sem er algjör lykilmaður hjá þeim. VIð náðum að koma þeim aðeins úr jafnvægi og náum góðri forystu, mér fannst við samt klaufar að gera ekki úti um leikinn. Hún var að verja mikið af dauðafærum á móti okkur og við hefðum getað klárað þetta fyrr, ég er samt feykilega ánægður með mitt lið.“

ÍBV náði góðum kafla eftir að Valskonur náðu 9:15 forystu og minnka muninn í 14:15 þegar nokkrar mínútur eru búnar af seinni hálfliek.

„ÍBV er með frábært lið, við vissum alveg að það gætu komið áhlaup, við stóðumst það og komum okkur aftur á lappir. VIð sigldum þessu að lokum nokkuð þægilega heim.“

Lovísa Thompson er orðinn fyrirliði Vals og átti frábæran leik í kvöld.

„Lovísa var góð og það voru margar góðar, Thea var góð og Hildigunnur frábært, sama með Elínu Rósu. Það sem við höfum verið að gera vel er það að við erum með góða breidd og erum að fá framlag frá mjög mörgum leikmönnum í vörn og sókn, það er það sem við ætlum að standa fyrir í vetur.“

Það var smá haustbragur á leikmönnum liðanna, mikið af töpuðum boltum.

„Við vorum klaufar í fyrri hálfleik sérstaklega þegar við vorum að troða honum mikið inn á línu í staðinn fyrir að halda breiddinni betur. Þetta lagaðist þegar það fór að líða á leikinn en auðvitað var mikið undir og mikil spenna í liðunum, bæði liðin vildu komast inn í Final 4.“

Hver er helsti munurinn á liðunum í ár?

„Mér fannst við ná að koma vel innstilltar í leikinn, tókum fast á þeim í byrjun, það er alltaf erfitt að koma hingað, það eru sterkir áhorfendur og erfiður útivöllur. Við náðum að tækla þær vel strax í byrjun og taka fast á þeim, við gáfum tóninn strax í byrjun.“
Thea Imani Sturludóttir sækir að marki ÍBV í kvöld en …
Thea Imani Sturludóttir sækir að marki ÍBV í kvöld en hún skoraði 5 mörk. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Ágúst náði góðum árangri með U17 ára landsliðið í sumar á EM B-landsliða, sér hann marga unga leikmenn fá tækifæri í deildinni í ár?

„Hérna voru nú nokkrar að spila sem stóðu sig frábærlega,“ sagði Ágúst en þá á hann eflaust við Elísu Elíasdóttur og Söru Dröfn Ríkharðsdóttur í ÍBV liðinu og þá á hann sjálfur einnig dóttur í Valsliðinu, Lilju, en allir þessir leikmenn stóðu sig vel á EM í sumar. Þar að auki var Amelía Dís Einarsdóttir á bekknum hjá ÍBV en kom ekki við sögu.“

„Við sjáum vonandi eina í viðbót hérna, ein örvhent sem er nú líka í fótboltanum hjá ÍBV, ég er að vona að hún detti hérna inn hægt og rólega,“ sagði Ágúst en þá á hann við Þóru Björgu Stefánsdóttur, sem lék frábærlega með ÍBV í Pepsi Max deild kvenna í sumar og skoraði sjö mörk í fimmtán leikjum.

„Það er klárlega mikið af efnilegum stelpum í mörgum liðum, framtíðin er að mörgu leyti björt og við þurfum að halda áfram að vinna í þessu í félögunum. Það hefur verið gert síðastliðin ár og við margir þjálfararnir höfum verið óhræddir að gefa þeim séns og það er mikilvægt að þora að hleypa þeim inná í leikjunum.“

mbl.is