Getur brugðið til beggja vona

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu.
Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Samkvæmt spá fyrirliða, þjálfara og formanna mun Grótta sleppa naumlega við fall annað tímabilið í röð í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni. Þó að Grótta hafi hafnað í 10. sæti á síðasta tímabili og sé aftur spáð þar á komandi tímabili endaði liðið fimm stigum frá 11. sætinu, sem er fallsæti, eftir feikigóða frammistöðu í nokkrum leikjum.

„Strákarnir hafa örugglega miklar væntingar og vilja sanna sig aftur og sýna að þetta hafi ekki verið einhver „byrjendaheppni“ í fyrra. Ég held að væntingarnar verði bara að vera þær að við stöndumst pressuna og að hin liðin taki okkur alvarlega. Núna vita andstæðingarnir hverjir eru innan okkar herbúða, hverjir leikmennirnir eru.

Það mun mæða mikið á leikmönnum okkar og þeir þurfa að taka stór skref en við erum ekki með einhverjar væntingar um það í hvaða sæti við ætlum að lenda. Við ætlum bara að reyna að gera það sem við gerðum í fyrra, standa í flestum liðunum og reyna að gera leik úr hverjum leik og reyna að bæta okkur með hverri umferðinni,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, í samtali við mbl.is.

Hann sagði hvorki þjálfara né leikmenn mikið vera að velta sér upp úr spánni enda gæti Grótta alveg eins sogast niður í fallbaráttu og að sama skapi gert fjölda liða skráveifu. „Það gæti allt eins farið svo að við verðum með 0 stig eftir sex umferðir og að allt verði í reyk. Svo að sama skapi getum við náð einhverjum meðbyr með góðri byrjun en það er ekkert sjálfsagt og ekkert sem við getum treyst á.

Við þurfum bara að treysta á að við séum klárir og að við séum að gera okkar. Það getur vel verið að við séum að gera okkar besta en að við náum samt ekki í stig. Við gætum þurft að glíma við það en svo lengi sem menn eru að gera sitt besta, eru að berjast og gera það sem við þjálfararnir leggjum upp með, erum við sáttir,“ bætti hann við.

Grótta hefur leik í deildinni gegn Val klukkan 19.30 í kvöld á heimavelli sínum á Seltjarnarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert