„Það verður lítill munur á þessum liðum í vetur“

Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH.
Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, býst við gífurlega harðri keppni um sæti í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, í vetur. Hann telur að allt geti gerst hjá liðunum sem er spáð í 3.-9. sæti.

Þrátt fyrir mikla blóðtöku með brottför hægri skyttunnar Einars Rafns Eiðssonar til KA sagði Ásbjörn FH-inga þó hvergi bangna. „Væntingar okkar eru allavega að ná heimaleikjarétti eftir deildakeppnina. Okkur er spáð 4. sæti og hefur verið spáð frá 3. niður í 6. sæti í þessum spám.

Val og Haukum er spáð í fyrsta og öðru sæti í þeim flestum en mér finnst hafa verið rosalega lítill munur á þessum liðum sem er spáð í 3.-8. sæti, ásamt Frömurunum, þeir eru öflugir líka. Það verður lítill munur á þessum liðum í vetur,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Spurður hvað FH þurfi að gera til þess að halda sér sem efst í deildinni sagði Ásbjörn: „Við erum ágætlega rútínerað lið að stórum hluta. Það sem breytist í ár frá því í fyrra er að við erum að fá tvo nýja leikmenn í útilínuna. Við erum að fá Jóhann Birgi [Ingvarsson] til baka, sem gat lítið leikið með okkur í fyrra eftir að hann kom eftir áramót, og við erum að fá nýja hægri skyttu [Litháann Gytis Smantauskas] alfarið.

Það breytir því að við þurfum að pússa nýja leikmenn inn í ný hlutverk og það verður vinnan á næstu vikum og mánuðum. Ef það tekst vel og við náum að pússa liðið vel saman bæði varnar- og sóknarlega – því fyrr sem það gerist, þeim mun fleiri stig munum við fá. Það er bara vinna og skemmtileg áskorun að finna sæti fyrir alla í hópnum í liðinu þannig að við séum með sem öflugasta heild.“

Leik FH og Selfoss í fyrstu umferð var frestað og hefur FH því leik eftir viku, í annarri umferð deildarinnar, þegar liðið fær Gróttu í heimsókn í Kaplakrika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert