Veittum Haukum ekki nógu mikla keppni í deildinni í fyrra

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ríkjandi Íslandsmeisturum Vals er spáð efsta sætinu í úrvalsdeild karla í handkattleik, Olísdeildinni, í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna fyrir komandi keppnistímabil.

Haukar unnu deildina með miklum yfirburðum á síðasta tímabili á meðan Valur náði á endanum að krækja í 3. sætið með góðum endaspretti. Valsmönnum óx stöðugt ásmegin í úrslitakeppninni og hafði að lokum öruggan sigur í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn gegn Haukum með tveimur sterkum sigrum. Því er búist við að þessi tvö lið verði sterkust á komandi tímabili og komi til með að berjast um titilinn.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, lét nokkrum sinnum hafa það eftir sér í viðtölum eftir leiki á síðasta tímabili að hann væri ekkert að pæla í deildarmeistaratitlinum. Í samtali við mbl.is sagði hann þó einfalda ástæðu fyrir því:

„Ég held að ég hafi ekki verið að stressa mig á honum út af því að ég gat ekki unnið hann. Þegar mótið byrjar viljum við vera þarna eins og öll lið. Auðvitað var ég ekki ánægður með niðurstöðuna hjá okkur í deildinni í fyrra, alls ekki. Við vorum mjög kaflaskiptir.

En það er gömul saga og ný að við viljum vera að berjast um þessa titla sem eru í boði. Við nálgumst ekki neina keppni án þess að ætla okkur alla leið. Við verðum fúlir ef það gengur ekki eftir. Auðvitað er þetta þéttur pakki, mörg lið og margt sem getur gerst,“ sagði hann.

Á komandi tímabili vonast Snorri Steinn eftir því að Valsliðið sýni meiri stöðugleika í deildinni og verði í almennilegri toppbaráttu þar. „Ég geri mér vonir um það. Mér fannst við ekki veita Haukum nærri því nægilega mikla keppni hvað deildina varðar í fyrra. Við töpuðum of mikið af leikjum, vondum leikjum. Við viljum gera betur þar, það er engin spurning.“

Vitanlega væri svo mikilvægt að toppa á réttum tíma líkt og Valur gerði á síðasta tímabili „Það er líka alveg á hreinu að þetta snýst um að vera á flugi á réttum tíma. Það er kúnst að geta gert bæði og alvöru lið geta haldið uppi þessum standard.“

Öðruvísi byrjun á tímabilinu

Hann sagði að sér finndist það skrýtið að deildin sé að fara af stað í kvöld þar sem liðið hafi þegar leikið fimm leiki á tímabilinu; tvo leiki í Evrópudeildinni, tvo í frestaðri bikarkeppninni frá síðasta tímabili og leikinn um Meistara meistaranna.

„Þetta er öðruvísi en það sem ég hef vanist hérna heima, tímabilið hefur farið allt öðruvísi af stað. Það er fyrsti leikur hjá okkur í kvöld og mér líður alls ekki eins og ég sé að fara að byrja tímabilið. Við höfum liggur við verið að í tvo mánuði.

Búist er við því að Valur og Haukar verði tvö …
Búist er við því að Valur og Haukar verði tvö sterkustu lið deildarinnar á tímabilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það hafa verið ferðalög í Evrópukeppninni og við erum í rauninni búnir að spila fimm úrslitaleiki, sem er náttúrlega mjög gaman. Svo er fram undan Lemgo og „Final four.“ Þetta reynir á mig, teymið og strákana; að fara ekki fram úr okkur, reyna að halda fókus á það sem er að gerast næst. Það getur verið kúnst.

Það er erfiður leikur í kvöld og svo kemur eitthvað annað. En mér finnst þetta rosalega gaman. Í staðinn fyrir að það hafi verið einhver aðdragandi að tímabilinu hefur þetta bara byrjað með hvelli. Það er mjög gott,“ sagði Snorri Steinn.

Ekki óeðlilegt ef við stöndum öðrum liðum aðeins framar

Með fimm hörkuleiki, sem hafa allir unnist, að baki áður en deildin fer af stað sagði hann að leikmenn Vals væru vissulega í hörku standi. „Já klárlega. Leikirnir sem við höfum verið að spila hafa verið úrslitaleikir og eðlilega hafa menn komist upp á tærnar hvað það varðar. Mín upplifun hvað okkar lið snertir er sú að að þessir leikir hafa verið betur spilaðir heldur en leikir á sama tímapunkti á síðustu tímabilum.

Við spiluðum, ásamt Haukum, lengst í fyrra og byrjuðum líka fyrstir þannig að það er ekkert óeðlilegt að við séum kannski aðeins framar en einhver lið en maður þarf samt að kalla það fram og sýna að svo sé. Ég er mjög ánægður með hvernig við höfum byrjað tímabilið,“ sagði Snorri Steinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert