Ætlum að vinna heimaleikinn gegn Lemgo

Tumi Steinn Rúnarsson í leik með Val á síðasta tímabili.
Tumi Steinn Rúnarsson í leik með Val á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tumi Steinn Rúnarsson, leikmaður karlaliðs Vals í handknattleik, segir undirbúning fyrir stórleikinn gegn þýska liðinu Lemgo annað kvöld hafa verið með besta móti og að Valsmenn ætli sér einfaldlega að vinna hann.

„Við erum búnir að hafa sirka fimm daga til að undirbúa okkur. Við erum búnir að vera einbeittir og æfa vel. Það hafa verið vídjófundir, við höfum borðað vel og borðað saman. Undirbúningurinn gengur mjög vel þannig að það er fullur fókus og við ætlum okkur að vinna þetta á heimavelli á morgun,“ sagði Tumi Steinn í samtali við mbl.is.

Fyrri leikur liðanna í annarri umferð Evrópudeildarinnar fer fram í Origo-höllinni á morgun. Beðinn um að meta möguleika Vals í einvíginu, þar sem sigur myndi skila liðinu alla leið í riðlakeppnina, sagði Tumi Steinn:

„Miðað við hvernig Bundesligan [þýska 1. deildin] er, maður er að horfa á leiki hjá þeim á móti Kiel, þá er samanburðurinn kannski svolítið óraunhæfur. Það er svolítið mikill munur á Kiel og Val. Ég vil bara meina að við eigum séns í þá hérna á heimavelli.

Það er fyrri leikurinn af tveimur þannig að við sjáum bara hvernig þetta fer á heimavelli og svo sjáum við hvernig þetta fer eftir níu daga í Þýskalandi. Við ætlum að vinna heimaleikinn og gera okkar besta úti.“

Valur eru ríkjandi Íslandsmeistarar.
Valur eru ríkjandi Íslandsmeistarar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað þarf Valsliðið að gera til þess að ná fram góðum úrslitum?

„Við ætlum að spila okkar leik, við ætlum ekkert að bakka út úr því. Við erum ekkert að fara að spila eftir þeirra hraða neitt, við spilum bara á okkar hraða og gerum það sem við erum sterkir í. Við erum með geggjaða vörn og Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] í markinu og spilum agaðan sóknarleik.

Ég held að það sé bara að gera fá mistök, þeir eru góðir í að refsa og spila hraðan bolta. Þeir eru með Bjarka [Má Elísson] í horninu. Við þurfum að sýna aga og bera virðingu fyrir hverri sókn því þeir eru svo ógeðslega snöggir fram,“ sagði Tumi Steinn einnig í samtali við mbl.is.

Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er einn lykilmanna Lemgo.
Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er einn lykilmanna Lemgo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert