Ef við komum hingað sem einhverjir kóngar getum við tapað

Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er einn lykilmanna Lemgo.
Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er einn lykilmanna Lemgo. AFP

Bjarki Már Elísson, hornamaður þýska handknattleiksfélagsins Lemgo, kveðst spenntur fyrir því að fá að takast á við Íslandsmeistara Vals í annarri umferð Evrópudeildarinnar.

Leikmenn og starfslið Lemgo flugu hingað til lands frá Frankfurt í dag fyrir leik morgundagsins, sem er fyrri leikur liðanna í keppninni og hefst klukkan 18.45.

Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka Má beið hann í alræmdri komuröðinni á Keflavíkurflugvelli. „Ég stend hérna á Keflavíkurflugvelli að bíða í mjög langri röð og bíð eftir því að komast í gegn,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Bjarki Már hafði látið hafa það eftir sér að það væri draumur að rætast að fá að mæta íslensku liði í Evrópukeppni, eitthvað sem hafi aldrei gerst þegar hann lék með Füchse Berlín, sem hafa í gegnum árin verið reglulegir gestir í Evrópukeppnum.

„Ég spilaði með Berlín í Evrópukeppni á hverju einasta ári og þar dreymdi mig svona um það. Þá voru man ég FH og Selfoss á þessum tíma í sömu keppni og jafnvel að dragast í sömu umferð og við. En mér varð aldrei að ósk minni þá.

Svo átti ég ekkert von á því að spila í Evrópukeppni með Lemgo en að ná því var náttúrlega geggjað. Svo þegar fyrsti andstæðingurinn reyndist íslenskur var það ennþá skemmtilegra,“ útskýrði hann, en Lemgo tryggði sér Evrópusæti með því að verða bikarmeistarar í Þýskalandi.

Þurfum að taka þá alvarlega

Bjarki Már er því spenntur fyrir leiknum í Origo-höllinni annað kvöld. „Hann leggst bara vel í mig. Þetta verður skemmtilegt og það verður gaman að takast á við Valsarana. Þeir eru með hörkulið, mjög gott lið myndi ég segja. Ég hef séð nokkra leiki hjá þeim og þeir eru að spila mjög vel.

Þeir eru hættulegur andstæðingur með marga spræka stráka og Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] í markinu, sem er þannig séð ennþá í heimsklassa. Þetta verður hörkuleikur.“

Beðinn um að rýna nánar í leikina tvo sagði hann ekki hlaupið að því að spá fyrir um hvernig þeir muni fara. „Það er erfitt að spá fyrir um það hvernig leikirnir munu þróast. Fyrstu mínúturnar munu auðvitað fara í að liðin þreifa aðeins á hvoru öðru, skoða og finna hvort annað.

Ég held að við gætum kannski nýtt okkur líkamlega yfirburði, ég held að við séum með stærri leikmenn og þyngri jafnvel, við getum eitthvað nýtt okkur það. En á móti kemur að þeir eru kannski með aðeins lægri og sneggri leikmenn og þeir munu væntanlega reyna að nýta sér það eitthvað.“

Bjarki Már sagði það þá ekki í boði fyrir Lemgo að vanmeta Val. Yrði það raunin gæti farið illa. „Þeir eru með marga flinka stráka sem eru góðir í handbolta. Við þurfum klárlega að taka þá alvarlega.

Ef við komum hingað sem einhverjir kóngar þá getum við alveg eins tapað fyrir þeim, það er vel hægt. Við þurfum að ná upp okkar varnarleik og þá held ég að við eigum góða möguleika,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is