Fyrrverandi landsliðsmaður þjálfar Kórdrengi

Róbert Sighvatsson, til vinstri, stýrir Kórdrengjum í vetur.
Róbert Sighvatsson, til vinstri, stýrir Kórdrengjum í vetur. Ljósmynd/Kórdrengir

Róbert Sighvatsson hefur verið ráðinn þjálfari handknattleiksliðs Kórdrengja. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Kórdrengir leika í 1. deild karla á komandi leiktíð, Grill 66-deildinni, en liðið er nýliði í deildinni.

Róbert lék með Víkingi og Aftureldingu hér á landi og þá lék hann einnig sem atvinnumaður með Schutterwald, Düsseldorf, Dormagen og Wetzlar á ferlinum.

Þá hefur hann þjálfað Víking, Þrótt og Wetzlar í Þýskalandi á þjálfaraferli sínum en hann lék 160 leiki með íslenska landsliðinu þar sem hann skoraði 243 mörk.

„Kórdrengir eru með háleit markmið og höfum við trú á að Róbert sé rétti maðurinn í verkið,“ segir meðal annars í tilkynningu Kórdrengja.

Kórdrengir hefja leik í 1. deildinni á laugardaginn þegar liðið heimsækir Aftureldingu U að Varmá í Mosfellsbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert