Naumt tap gegn þýsku bikarmeisturunum

Bjarki Már Elísson fórnar höndum í kvöld.
Bjarki Már Elísson fórnar höndum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Valur misst niður sex marka forskot í síðari hálfleik gegn þýsku bikarmeisturunum Lemgo  í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópudeildar karla í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. 

Valur sló út Porec frá Króatíu í fyrstu umferð en Bjarki Már Elísson og samherjar hans í Lemgo sátu hjá. Sigurliðið í þessu einvígi kemst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Bjarki Már var markahæstur hjá Lemgo með 9 mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Bjarki nýtti öll sín marktækifæri ef frá er talið þegar hann freistaði þess að skora úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn. Hann átti stóran þátt í sigri Lemgo.

Valur var yfir 17:14 að loknum fyrri hálfleik og komst í 23:27 þegar tuttugu mínútur voru eftir. Þá náðu leikmenn Lemgo betri tökum á leiknum og tókst að landa sigri. 

Smám saman saxaði Lemgo á forskotið. Vörnin varð öflugri hjá þýska liðinu og sænski markvörðurinn Peter Johannesson skilaði sínu á lokakaflanum. Útilínan í sókninni hjá Lemgo hafði verið í miklum vandræðum gegn öflugri vörn Vals en Lukas Hutecek kom inn á í síðari hálfleik og hann fann leiðina í gegn með skotum af miðjunni. Lemgo náði tveggja marka forskoti þegar tvær mínútur voru eftir.

Valsmenn fengu þó tækifæri til að jafna í sínni síðustu sókn. Þeim tókst ekki að losa um Magnús Óla Magnússon sem hafði verið þeirra hættulegastur og Agnar Smári Jónsson skaut af töluverðu færi sem Jóhannesson sá við. Voru þá um 10 sekúndur eftir og Lemgo lék út leiktímann.  

Mikið gekk á í leiknum en Björgvin Páll Gústavsson fékk rauða spjaldið á 23. mínútu og Jonathan Carlsbogard hjá Lemgo á 30. mínútu. 

Björgvin var rekinn út af vegna áreksturs við Bjarka. Bjarki var kominn einn í gegn í hraðaupphlaupi og sveif inn í teiginn. Björgvin kom út á móti. Bjarki skaut framhjá hægri hlið Björgvins og skoraði. En um leið small vinstri hönd eða handleggur Björgvins í andliti Bjarka. Höggið var töluvert og fékk Bjarki það á nefið. Hann lá eftir um stund. Þegar hann var studdur af velli var hann ósáttur við Björgvin og fékk Bjarki tveggja mínútna brottvísun. Þegar Bjarki hafði verið studdur út af sýndu dómararnir frá Lettlandi Björgvini, rauða spjaldið við litla hrifningu Snorra Steins Guðjónssonar þjálfara Vals. 

Carsbogard fékk rauða spjaldið fyrir að fara aftan í Alexander sem var að sleppa í gegnum í hraðaupphlaupi og bjó sig undir að taka á móti sendingu. 

Valur 26:27 Lemgo opna loka
60. mín. Peter Johannesson (Lemgo) varði skot Agnar Smári skaut fyrir utan og Johannesson mætti í hornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert