Senda skýr skilaboð með ráðningu Guðmundar

Guðmundur Þ. Guðmundsson tekur við liði Fredericia næsta sumar.
Guðmundur Þ. Guðmundsson tekur við liði Fredericia næsta sumar. AFP

Danska handknattleiksfélagið Fredericia hefur sent frá sér skýr skilaboð með því að ráða Guðmund Þórð Guðmundsson sem þjálfara karlaliðs síns til þriggja ára, frá og með sumrinu 2022.

Þetta segir handboltasérfræðingurinn Bent Nyegaard, sem á árum áður þjálfaði bæði Fram og ÍR, í umræðum um ráðninguna á TV2 í Danmörku.

„Þegar ráðinn er þjálfari með jafnmikla reynslu og Guðmundur býr yfir ásamt þeim afrekum sem hann hefur unnið, er verið að lyfta félaginu upp á næsta þrep. Þetta eru mjög skýr skilaboð um að Fredericia ætli sér að ná langt og það sé alvara á bak við þær yfirlýsingar að liðið ætli að spila í Evrópukeppni á ný fimmtíu árum eftir að liðið lék úrslitaleik í Evrópukeppni árið 1976,“ sagði Nyegaard við TV2.

mbl.is