Benfica sló ljónin úr keppni

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen eru úr …
Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen eru úr leik í Evrópudeildinni. AFP

Portúgalska handknattleiksfélagið Benfica gerði sér lítið fyrir og vann frækinn 33:28 sigur gegn þýska félaginu Rhein-Neckar Löwen, sem Ýmir Örn Gíslason leikur með, í annarri umferð Evrópudeildarinnar og er þar með komið í riðlakeppnina.

Fyrri leiknum lauk með 31:31 jafntefli og Benfica fer þar því áfram samanlagt 64:59.

Ýmir Örn lék með þýsku ljónunum í Löwen í kvöld en komst ekki á blað.

Þá vann svissneska liðið Kadetten Scaffhausen, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, góðan 32:27 útisigur gegn spænska liðinu Fraikin Granollers.

Fyrri leiknum lauk með þriggja marka sigri Kadetten og fer liðið því örugglega í riðlakeppnina eftir samanlagðan 68:60 sigur.

mbl.is