Sterkur sigur Selfoss gegn FH

Ragnar Jóhannsson hægri skytta Selfyssinga.
Ragnar Jóhannsson hægri skytta Selfyssinga. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfyssingar unnu frábæran sigur á FH í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, þegar liðin mættust á Selfossi. Lokatölur urðu 27:23.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um meiðslalista Selfoss og spekingar búast ekki við miklu af liðinu fyrir áramót. Selfyssingar blésu á allar þær hrakspár með mögnuðu leikplani. Þeir ákváðu að byrja á lélega kaflanum en tóku síðan gegnheilar 50 mínútur af frábærum handbolta.

Selfyssingar voru afleitir í upphafi leiks og gekk illa bæði í vörn og sókn. FH-ingar gengu mjög auðveldlega á lagið, nýttu sér alla veikleika Selfoss og náðu fljótt fjögurra marka forystu. Halldór Jóhann Selfossþjálfari tók leikhlé eftir tíu mínútna leik í stöðunni 1:5 og í kjölfarið stórbatnaði spilamennska Selfoss. Þeir átu upp forskot FH jafnt og þétt og þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik jafnaði Einar Sverrisson fyrir Selfoss, 10:10.

Þarna munaði miklu um framlag markvarðanna því Phil Döhler varði fimm skot í marki FH á fyrstu sex mínútunum, en síðan varla söguna meir. Um leið kviknaði á Vilius Rasimas í marki Selfoss og hann klukkaði nokkra mjög mikilvæga bolta um leið og Selfyssingar skriðu framúr. Það var virkilega gaman að sjá til Ísaks Gústafssonar í fyrri hálfleiknum því hann var óhræddur að keyra á hávaxna vörn FH og óhætt er að segja að leikmaðurinn ungi hafi keyrt upp stemninguna hjá sínum mönnum.

Selfoss leiddi 14:12 í hálfleik og þeir kláruðu síðan seinni hálfleikinn af miklu öryggi. Selfyssingar voru ótrúlega yfirvegaðir og sama hvaða meðulum FH beitti - heimamenn voru löngu áður búnir að lesa lyfseðilinn og höfðu svör við öllum tilraunum FH. 

Rasimas hélt áfram að verja eins og berserkur og var maður leiksins en þegar á reyndi í sókninni stigu menn upp til jafns, Einar Sverrisson, Ragnar Jóhannsson og Hergeir Grímsson með fallegum mörkum gegn varnarlausum FH-ingum. 

Hjá FH fór Jóhann Birgir Ingvarsson vel af stað og Einar Örn Sindrason nýtti sín hraðaupphlaup vel. Döhler byrjaði aftur að verja þegar leið á leikinn en það var of seint og FH náði aldrei að brúa bilið. Andleysi í mótlæti og slæmar ákvarðanatökur í sókninni urðu FH að falli í kvöld.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/5 mörk og Ragnar Jóhannsson skoraði 6 og Vilius Rasimas varði 21/1 skot. Hjá FH var Jóhann Birgir Ingvarsson markahæstur með 5 mörk og Phil Döhler varði 16 skot í markinu.

mbl.is var í Set-höllinni í kvöld og má sjá textalýsingu frá leiknum hér að neðan.

Selfoss 27:23 FH opna loka
60. mín. Vilius Rasimas (Selfoss) ver víti Ágætis aðferð til að kóróna frábæran leik! 21/1 skot varið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert