„Síðan slökknaði bara á þessu“

Jóhann Birgir Ingvarsson í leik með FH á þarsíðasta tímabili.
Jóhann Birgir Ingvarsson í leik með FH á þarsíðasta tímabili. Haraldur Jónasson/Hari

Jóhann Birgir Ingvarsson, markahæsti maður FH í tapleiknum gegn Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, var svekktur í leikslok. Hann segir að FH-ingar hafi verið sjálfum sér verstir.

„Við byrjuðum virkilega vel en síðan slökknaði bara á þessu hjá okkur. Markmaðurinn þeirra byrjaði að verja og vörnin og markvarslan hjá okkur var ekki nógu góð. Þetta helst allt í hendur,“ sagði Jóhann Birgir í samtali við mbl.is eftir leik.

Staðan var 14:12 í leikhléi og þrátt fyrir ágæta spretti tókst FH aldrei að brúa bilið í seinni hálfleiknum. Selfoss sigraði að lokum örugglega, 27:23.

„Við bjuggum okkur til mjög góð móment til þess að komast aftur inn í leikinn, en við kláruðum þau aldrei. Kannski vorum við líka oft kærulausir í varnaraðgerðum. Við vorum bara sjálfum okkur verstir í seinni hálfleiknum. Við nýttum færin okkar illa og hefðum mátt taka betri ákvarðanir í nokkrum sóknum. Þetta var samt leikur þangað til á síðustu mínútunum og ég er mjög svekktur með að við skyldum ekki vera í betri stöðu í lokin,“ sagði Jóhann Birgir enn fremur.

Hann skilaði þó sínu og var markahæstur Hafnfirðinga í leiknum. „Já, ég skoraði nokkur ágæt mörk en ég hefði getað skorað meira. Kannski þarf maður að koma sér í aðeins betra stand, og þá fara mörkin að detta. Við látum þetta tap ekki slá okkur út af laginu og gefum allt í þetta í framhaldinu,“ sagði Jóhann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert