Gamla ljósmyndin: Systkini veittu bikurunum viðtöku

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þegar úrslitin lágu fyrir í bikarkeppni HSÍ fyrir þrjátíu og tveimur árum kom upp sú merkilega staða að systkini veittu bikurunum viðtöku fyrir hönd bikarmeistaraliðanna. 

Stjarnan varð tvöfaldur sigurvegari í keppninni því félagið sigraði bæði í kvennaflokki og karlaflokki. Í báðum tilfellum var andstæðingurinn FH og í báðum tilfellum vann Stjarnan eins marks sigur. Stjarnan vann FH 19:18 í úrslitaleiknum í kvennaflokki og 20:19 í úrslitaleiknum í karlaflokki. 

Leikið var í Laugardalshöll á sumardaginn fyrsta hinn 20. apríl árið 1989. Í umfjöllun sinni í Morgunblaðinu skrifaði Logi Bergmann Eiðsson í fyrirsögn: „Stjörnudagurinn fyrsti“ en Logi starfar í dag hjá fjölmiðlum Árvakurs og skrifar pistla í sunnudagsblaðið. 

Guðný Gunnsteinsdóttir og Skúli Gunnsteinsson voru fyrirliðar Stjörnunnar og tóku því bæði við bikar í Laugardalshöllinni sama daginn. Þar að auki léku þau bæði sem línumenn. 

„Þetta var þriðji bikarúrslitaleikur okkar á fjórum árum og kominn tími til að sigra,“ sagði Guðný í samtali við Katrínu Friðriksen í Morgunblaðinu laugardaginn 22. apríl 1989. „Þetta var stórkostlegt og við höfum þurft að hafa mikið fyrir þessu,“ sagði Skúli í samtali við Loga. 

Myndina af systkinunum úr Garðabænum með bikarinn á milli sín í Laugardalshöllinni tók Bjarni J. Eiríksson sem myndaði fyrir Morgunblaðið á þessum árum. 

Í dag verður leikið til úrslita í bikarkeppni HSÍ fyrir tímabilið 2020-2021 og er leikið á Ásvöllum þar sem Laugardalshöllin er lokuð vegna viðgerða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert