Átti erfitt með að festa svefn

Martha Hermannsdóttir rífur bikarinn á loft á Ásvöllum í gær.
Martha Hermannsdóttir rífur bikarinn á loft á Ásvöllum í gær. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Fyrirliði KA/Þórs, Martha Hermannsdóttir, hefur upplifað eitt og annað sem leikmaður liðsins og leikmaður KA í gegnum árin. 

Lengi vel var hún annað hvort í fallbaráttu með sínum liðum eða í næstefstu deild. Nú er hún fyrirliði Akureyrarliðs sem vann fjóra bikara á keppnistímabilinu 2020-2021 eftir sigur KA/Þórs í Coca Cola bikarkeppninni í handknattleik í gær. 

Ef undirritaður hefði fulllyrt við Mörthu árið 2019 að hún ætti eftir að taka á móti öllum stóru bikurunum árið 2021 sem fyrirliði KA/Þórs, hvernig hefði hún brugðist við? „Ég hefði haldið að þú værir eitthvað geðveikur,“ sagði Martha þegar mbl.is spjallaði við hana þegar niðurstaðan lá fyrir. 

KA/Þór vann Fram í úrslitaleiknum 27:20 á Ásvöllum í gær en bikarkeppninni var frestað síðasta vetur vegna heimsfaraldursins. KA/Þór var deildarmeistari síðasta vor og Íslandsmeistari í sumar.

 „Þetta var bikarinn sem vantaði hjá okkur. Ég held að við séum búnar að sýna að við séum líka pínu góðar undir pressu. Talað var um að erfitt væri að vera Íslandsmeistari og mæta sem meistarar inn í nýtt tímabil. Í fyrra vorum við óskrifað blað í upphafi tímabilsins. Við erum bara góðar. Ég átti til dæmis ekki neitt sérstaklega góðan leik í dag en við stöndum saman og vorum ótrúlega flottar.“

Ekki var fyrirséð að KA/Þór myndi vinna Fram með sjö marka mun, lið sem er með reynda leikmenn sem hafa unnið titla. Hvernig skýrir Martha þennan mun sem skapaðist í leiknum? 

„Vörnin var sturluð hjá okkur. Hún var rosalega þétt og markvarslan var geggjuð. Fram hafði skorað tvö mörk eftir korter eða svo. Við mættum tilbúnar í bardaga og það sýndi sig bara. Um leið var mikil leikgleði hjá okkur. Síðast þegar við töpuðum fyrir Fram þá brenndum við okkur á því að missa gleðina. Þá fór hakan ofan í bringu og þá gleymdum við okkar gildum sem er að njóta og hafa gaman að þessu. Þetta er jú bara handbolti. Við hömruðum á því aftur og aftur að njóta þess að spila og hafa gaman að þessu. Ég held að við höfum sýnt það í dag. Við vorum liðið sem var með kassann úti.“

Martha Hermannsdóttir tók á móti fjórum bikurum með KA/Þór keppnistímabilið …
Martha Hermannsdóttir tók á móti fjórum bikurum með KA/Þór keppnistímabilið 2020-2021. Ljósmynd/Þórir

Martha lék með KA/Þór sem fékk skell í bikarúrslitaleiknum gegn Fram árið 2020 31:18. Hefur hún verið með á bak við eyrað að kvitta fyrir þau úrslit? 

„Já Jesús. Ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi og hugsaði nokkrum sinnum um hversu hrikalega súrt það var. Við ætluðum aldeilis að svara fyrir okkur. En um leið var spennustigið ekki of hátt og við vorum tilbúnar. Vörn, markvarsla og hraðaupphlaup er það sem okkar lið nærist á og við reyndum að einbeita okkur að því,“ sagði Martha Hermannsdóttir ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert