Gísli Þorgeir er kominn aftur í handboltagírinn

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska A-landsliðinu á HM …
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska A-landsliðinu á HM í Egyptalandi í byrjun árs. AFP

Hafnfirðingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, er kominn á fulla ferð með þýska liðinu Magdeburg. Gísli hefur jafnað sig eftir aðgerð á öxl og hefur lagt sitt af mörkum hjá Magdeburg sem hefur byrjað nýtt keppnistímabil frábærlega og er taplaust.

„Ég er bara góður og með fullt sjálfstraust varðandi sjálfan mig og öxlina. Það hefur ekkert plagað mig hingað til og mér líður vel í öxlinni. Ég hef verið með á öllum æfingum síðustu mánuði og gengið hrikalega vel. Ég hef spilað meira og meira. Í síðasta leik á móti Melsungen spilaði ég í 40 mínútur sem var ekki auðveldur leikur fyrir okkur að vinna.

Í leiknum þar á undan á móti Leipzig spilaði ég síðasta korterið og kom inn á þegar við vorum undir. Það er skemmtilegt að koma aftur inn í slíkar aðstæður, þegar spennan er sem mest. Ég er í raun kominn aftur í handboltagírinn,“ sagði Gísli þegar Morgunblaðið heyrði hljóðið í honum. Gísli fór úr axlarlið 21. mars og fór í aðgerð í framhaldinu.

„Ég myndi segja að bataferlið hafi verið nokkurn veginn á áætlun. Eftir að hafa rætt við lækninn gerði ég mér engar væntingar um að komast snemma af stað aftur. Ég vildi taka mér eins mikinn tíma og ég þyrfti til að fá mig góðan. Þegar ég meiddist var ég ekki með sérstaka tímasetningu í huga en gerði mér þó ákveðnar vonir um að vera leikfær þegar deildin byrjaði. Þetta er allt gott og blessað núna. Ég sé heldur ekki eftir því að hafa gefið mér tíma til að koma öxlinni í gang. Þetta lítur vel út og er allt samkvæmt áætlun.“

Framtíðin er spennandi

Þrátt fyrir að vera tiltölulega ungur leikmaður hefur Gísli fengið stóran skammt af meiðslum og hefur þrívegis lent í axlarmeiðslum. Hjálpaði það honum að hafa áður gengið í gegnum svipað endurhæfingarferli?

„Ég er auðvitað búinn að lenda þrisvar í einhverjum axlarmeiðslum. Það hjálpaði mér á vissan hátt í endurhæfingunni því ég vissi betur hvað er óhætt að gera og hvenær. Það hjálpaði auðvitað að þekkja ferlið. Ef ég ætti að fara í verknám í sjúkraþjálfun þá myndi ég segja að ég væri búinn með það varðandi axlir og það sem þeim tengist. Ég er orðinn góður í því,“ sagði Gísli í léttum dúr en bætti við á alvarlegri nótum:

„Maður er búinn að upplifa nokkuð margt varðandi meiðsli og kannski aðeins of mikið. En ég tek það fram að ég er mjög sáttur á þeim stað sem ég er í dag og framtíðin er spennandi. Ekki síst þar sem við erum með frábært lið hjá Magdeburg og góðan þjálfara. Félagsskapurinn er góður. Ég get ekki beðið um meira.“

Viðtalið við Gísla Þorgeir má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert