Ég er í skýjunum

Hildigunnur Einarsdóttir stekkur í gegn í dag.
Hildigunnur Einarsdóttir stekkur í gegn í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

„Ég er í skýjunum,“ var það fyrsta sem línukonan Hildigunnur Einarsdóttir sagði í samtali við mbl.is eftir sætan 23:21-sigur á Serbíu í undankeppni EM í handbolta á Ásvöllum í dag.

„Þetta var rosalega erfiður leikur og mikið barist. Við vorum drullufúlar með fyrri hálfleikinn gegn Svíþjóð. Við ætluðum að bæta fyrir það og við gerðum það,“ bætti hún við. 

Íslenska liðið var yfir stærstan hluta leiks en um miðbik seinni hálfleiks tókst Serbíu að komast yfir. Ísland fagnaði hinsvegar sigri eftir flottan lokakafla. 

Aldrei í boði að gefast upp

„Maður þarf að halda haus, því þetta getur verið upp og niður. Við vorum ákveðnar í að við ætluðum ekki að tapa þessum leik. Mér fannst við vera ákveðnari og mér fannst við vera betri. Við vorum aðeins á undan og það var ekki í boði hjá okkur að gefast upp.

Hildigunnur í áhugaverðum slag í dag.
Hildigunnur í áhugaverðum slag í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Við náðum að pússa sóknarleikinn og mér fannst það ganga vel. Við sóttum betur á markið í dag á meðan við vorum meira að fara upp í stúku gegn Svíum. Það voru alltaf allir að sækja og við komum okkur alltaf í færi. Við spiluðum sóknarleikinn vel og spiluðum langar sóknir. Markmiðið var að klára með slútti og við gerðum það.“

Hildigunnur var í hörðum átökum á línunni allan leikinn gegn stórum og stæðilegum leikmönnum Serbíu. „Mér fannst það gaman, eins og alltaf í svona átökum. Ég held að línan þeirra hafi fengið einhverja 2-3 bolta og við getum lifað með því. Dómararnir voru mjög passasamir um hvað mátti á línunni, þannig hún mátti ekki halda mikið. Hún var stór og þung og allt það en hún var ekki hættulegasti punkturinn í þessu liði í dag.“

Hildigunnur skoraði sjálf fimm mörk í leiknum, flest eftir flottar línusendingar hjá Rut Jónsdóttur og Ragnheiði Júlíusdóttur. „Það er draumur að spila með þeim. Þær eru góðar að finna línuna og eru agressívar að sækja. Það þurfti að stíga mikið út í þær, þá losaði um mig og þær voru að gefa á mig. Við spiluðum ótrúlega flott saman sem lið og sem liðsheild. Það skilar mikilvægum sigri í dag.“

Línukonan sterka segir sigurinn í dag skila meiru en bara tveimur stigum í hús í undankeppninni. „Þetta gefur okkur massíft sjálfstraust í það sem koma skal. Við sýndum hvað við getum gert. Það ver kærkomið að vinna stórt lið sem fer á öll stórmót. Þetta er vonandi byrjunin á einhverju meira hjá okkur,“ sagði Hildigunnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert