Mikilvægt inn í framtíðina

Arnar Pétursson var líflegur á hliðarlínunni í dag.
Arnar Pétursson var líflegur á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

„Mér líður yfirleitt vel með þetta lið,“ sagði stoltur Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, eftir 23:21-sigur á Serbíu í undankeppni EM á Ásvöllum í dag. Sigurinn var kærkominn eftir 13 marka tap fyrir Svíþjóð í fyrsta leik riðilsins.

„Þótt við höfum tapað stórt á móti Svíum, þá var ég ánægður með vinnuframlagið. Auðvitað fór aðeins um mig þegar Serbarnir komust yfir en það var frábært að sjá hvernig stelpurnar svöruðu því. Þær brotnuðu ekki og héldu áfram,“ sagði Arnar og hélt áfram.

„Hugarfarið var gott og það var ró yfir öllu sem við vorum að gera. Við stýrðum þessu vel í sókninni, vörnin og markvarslan var góð. Það þarf ýmislegt að ganga upp til að vinna svona leik og það gekk vel í kvöld. Ragnheiður var flott. Hún tók skot og var óhrædd og það er það sem ég vil fá frá henni. Hún er þarna inn á til að láta vaða og við erum enn að vinna í ákveðnum hlutum.“

Vel var mætt á völlinn í dag og voru bæði lið studd vel og innilega. „Ég vil þakka Arion fyrir að bjóða fólki á þennan leik. Það er ómetanlegt að hafa svona stuðningsaðila og ómetanlegt fyrir okkur að fá fulla stúku. Við lágum fyrir mjög sterku liði Svía fyrir örfáum dögum síðan en mætum svo í dag og fáum þennan stuðning. Það er ómetanlegt.“

Arnar segir sigurinn gefa liðinu meira en bara þau tvö stig sem í boði voru. „Þetta gefur okkur það að hafa meiri trú á þeim verkefnum sem við erum að fara í. Trúin eykst á það sem við erum að gera. Það er mikilvægt inn í framtíðina,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert