Þetta var topp þrír

Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Serbíu í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Serbíu í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst með sjö mörk er Ísland vann sætan 23:21-sigur á Serbíu í undankeppni EM í handbolta í dag. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði.

„Mér líður mjög vel. Þetta var óþarfa spennandi í lokin en mér fannst við alltaf vera með þetta. Baráttan var betri okkar megin og okkur langaði þetta meira en þeim. Við vorum skynsamar í sókninni, skutum vel á markmanninn og svo var Elín að verja vel allan leikinn,“ sagði Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Ísland var yfir nánast allan leikinn en um miðbik seinni hálfleiks tókst Serbíu að komast einu marki yfir. Íslenska liðið sigldi hinsvegar sigrinum í höfn eftir flottan lokakafla.

„Maður varð náttúrlega smá stressaður en mér finnst mikilvægt að við náum að halda ró okkar og vorum áfram skynsamar í sókninni. Við tókum eina vörn í einu og okkar vörn var frábær í dag. Ég er fegin að þetta endaði svona. Þetta gefur okkur sjálfstraust fyrir komandi leiki. Það er frábært að fá leiki og spila betur saman. Við fáum ekki það mikið af æfingum eða leikjum yfir árið. Þessi sigur var frábær fyrir liðið,“ sagði Ragnheiður.

Ragnheiður, fyrir miðju númer 9, í leiknum í dag.
Ragnheiður, fyrir miðju númer 9, í leiknum í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Hún nýtti tækifærið vel í fjarveru Lovísu Thompson og lék vel á báðum endum vallarins. Hún segir þetta einn af sínum betri landsleikjum. „Já, ég myndi segja það. Þetta var topp þrír örugglega. Ég er ótrúlega fegin að fá mínútur. Lovísa datt út og ég nýtti það að fá að spila meira í dag. Ég er mjög ánægð með minn leik,“ sagði Ragnheiður.

Meira stressandi að vera upp í stúku

Framkonan er yfirleitt ófeimin við að skjóta á markið, eins og hún sýndi í dag með góðum árangri. Ragnheiður viðurkennir að það sé aðeins öðruvísi að fara upp í skot í jöfnum landsleik en í deildinni hér heima.

„Já, ég viðurkenni það. Það er samt án djóks meira stressandi að vera upp í stúku. Ég er vön úrslitaleikjum og ég hef reynsluna í þetta. Þetta var smá stressandi í lokin en gekk sem betur fer.“

Stuðningsmenn Serbíu fjölmenntu á völlinn og voru með mikil læti. Ragnheiður viðurkennir að það hafi komið sér á óvart. „Það kom mér ótrúlega á óvart hvað þau voru mörg. Þau voru frábær allan tímann og stundum leið manni eins og maður væri í Serbíu. Það var líka geggjuð stemning hjá okkur og það hjálpaði okkur í dag,“ sagði Ragnheiður að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert