Of mikið af gömlu góðu skítamörkunum

Hergeir Grímsson skýtur að marki í kvöld.
Hergeir Grímsson skýtur að marki í kvöld. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Selfyssingar eru í ágætri stöðu eftir fyrri leik sinn gegn slóvenska liðinu Jerusalem Ormož í 2. umferð Evrópubikars karla í handbolta. Liðin gerðu 31:31 jafntefli á Selfossi í kvöld.

Selfoss skoraði síðustu þrjú mörkin í leiknum eftir frábæra baráttu og tryggði sér jafntefli

„Við vorum öflugir í lokin en vorum klaufar á köflum í leiknum. Við vorum að klikka á mjög góðum færum í fyrri hálfleik og vörnin hún lak aðeins of mikið í seinni hálfleik. Þeir voru að skora aðeins of mikið af þessum gömlu góðu skítamörkum,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við mbl.is eftir leik.

„Slóvenarnir spila hratt og klippa mikið og ef þeir ná því þá þrýsta þeir okkur niður um leið. Þeir náðu því of oft í kvöld og þá erum við flatir og það endar með því að þeir fá gott færi. Við þurfum að mæta þeim betur án þess að opna vörnina um leið. Við þurfum að ná fleiri stoppum og fleiri brotnum fríköstum á móti svona liði sem er lágvaxið og snöggt,“ bætti Hergeir við.

Fyrirliðinn metur stöðu Selfyssinga góða fyrir seinni leikinn í Slóveníu næsta laugardag og þar kemur aðeins eitt til greina.

„Við vorum búnir að skoða þá eitthvað aðeins fyrir leikinn í kvöld, þetta er flott lið, léttir og vel spilandi en nú erum við búnir að kynnast þeim betur og við ætlum bara að fara til Slóveníu til þess að vinna. Við þurfum að laga aðeins vörnina og þá dettur markvarslan inn og þá erum við bara helvíti góðir,“ sagði Hergeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert