Afturelding ekki í vandræðum með nýliðana

Blær Hinriksson í leik með Aftureldingu gegn HK síðastliðinn mánudag.
Blær Hinriksson í leik með Aftureldingu gegn HK síðastliðinn mánudag. Unnur Karen

Afturelding fékk nýliða Víkings úr Reykjavík í heimsókn í Mosfellsbæinn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld og vann afar öruggan 28:19 sigur.

Afturelding leiddi með fjórum mörkum, 12:8, í hálfleik.

Eftir prýðis byrjun gestanna í síðari hálfleik þar sem þeim tókst að minnka muninn í 13:11 tóku Mosfellingar aftur alla stjórn á leiknum og hleyptu Víkingum ekki nær en fjórum mörkum á eftir sér það sem eftir lifði leiks.

Víkingum tókst ekki að skora mark síðustu sex mínúturnar á meðan Afturelding gekk á lagið og vann að lokum þægilegan níu marka sigur.

Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur í liði Aftureldingar með átta mörk.

Jóhannes Berg Andrason og Andri Dagur Ófeigsson voru markahæstir Víkinga með fjögur mörk hvor.

Brynjar Vignir Sigurjónsson í marki Aftureldingar varði 12 af 31. skoti sem hann fékk á sig, sem er tæplega 39 prósent markvarsla.

Jovan Kukobat varði þá 15 af þeim 43. skotum sem hann fékk á sig, sem er tæplega 35 prósent markvarsla.

Með sigrinum fer Afturelding upp í þriðja sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 8 stig að loknum sex leikjum.

Víkingur er áfram stigalaust á botni deildarinnar þegar liðið hefur leikið sex leiki.

mbl.is