Fór á kostum í Evrópudeildinni

Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í jafntefli Aix.
Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í jafntefli Aix. AFP

Kristján Örn Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir franska liðið Aix þegar það gerði 26:26-jafntefli gegn Gorenje frá Slóveníu í C-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í Frakklandi í kvöld.

Kristján Örn var markahæsti maður Aix ásamt Karl Konan en Aix er með eitt stig í sjötta og neðsta sæti riðilsins eftir fjóra leiki.

Þá skoraði Bjarki Már Elísson tvö mörk fyrir Lemgo þegar liðið vann níu marka sigur gegn Cocks frá Finnlandi í B-riðli keppninnar í Þýskalandi.

Leiknum lauk með 39:30-sigri Lemgo en Lemgo er í þriðja sæti riðilsins með 6 stig, líkt og GOG, Nantes og Benfica.

Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í danska liðinu GOG unnu einmitt 33:25-sigur gegn Benfica í Portúgal en Viktor Gísli kom lítið við sögu í leiknum og varði ekki skot í markinu.

Þá gerðu Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten 25:25-jafntefli gegn Nimes frá Frakklandi í D-riðlinum í Sviss en Kadetten er í fimmta sætinu með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert