„Ætla rétt að vona að menn hafi reiknað með okkur í toppbaráttunni“

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV var sáttur með stigin tvö eftir 32:28 sigur gegn Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld

„Ég er sáttur með niðurstöðuna en frammistaðan hefði mátt vera betri á nokkrum sviðum og jafnari yfir leikinn.“

Björn Viðar Björnsson kom inn í mark Eyjamanna í hálfleik eftir að Petar Jokanovic varði einungis eitt skot í fyrri hálfleik. Við það virtist vörn ÍBV smella og þeir sigu framúr Stjörnunni.

„Við fórum að taka aðeins fastar á þeim varnarlega og mæta þeim aðeins fyrr. Það hjálpar Birni líka en hann varði mikilvæg skot. Við fengum líka hraðaupphlaup svo við náðum að búa til smá forystu.“

Theodór Sigurbjörnsson spilaði einnig bara seinni hálfleikinn en að sögn Erlings var það til að dreifa álaginu. Theodór kom inn með miklum krafti í seinni hálfleikinn.

„Við kepptum leik fyrir tveimur dögum síðan og svo er leikur aftur á sunnudaginn. Við þurfum aðeins að hugsa um hópinn, við erum sterkan hóp. Gabríel [Martinez Róbertsson] er frábær hornamaður, við erum með frábæra hornamenn til að skipta þessu á milli sín. Svo kom kannski bara í ljós að það getur borgað sig að hafa ferska menn á bekknum. Við þurftum svo sannarlega að hafa fyrir þessum sigri gegn klóku Stjörnuliði.“

Eins og Erlingur segir er mikið álag á liðinu þessa dagana.

„Það var verkefni dagsins að reyna að gíra sig upp í leik eftir góðan sigur gegn Selfossi fyrir tveimur dögum. Svo er aftur leikur á sunnudaginn svo nú eru allt í einu þrír leikir á einni viku á meðan það voru kannski tveir leikir í mánuð þar á undan.“

Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir komandi toppbaráttu ÍBV.

„Ég ætla rétt að vona að menn hafi reiknað með okkur í toppbaráttunni, miðað við hópinn og ungu strákana sem eru að koma upp. Það er engin spurning að við ætlum að vera með í henni.“

mbl.is