Íslendingarnir atkvæðamiklir í Þýskalandi

Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Stuttgart með sjö mörk.
Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Stuttgart með sjö mörk. AFP

Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Stuttgart þegar liðið vann fimm marka útisigur gegn Erlangen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld. Leiknum lauk með 32:27-sigri Stuttgart en Viggó skoraði sjö mörk í leiknum.

Þá átti Andri Már Rúnarsson einnig mjög góðan leik fyrir Stuttgart og skoraði fimm mörk en Stuttgart er með 7 stig í fimmtánda sæti deildarinnar, stigi frá fallsæti.

Daníel Þór Ingason skoraði þrjú mörk fyrir Balingen þegar liðið tapaði á heimavelli gegn Göppingen, 26:30.

Oddur Gretarsson lék ekki með Balingen vegna meiðsla en liðið er með 6 stig í sextánda og þriðja neðsta sætinu, stigi frá fallsæt.

Janus Daði Smárason meiddur í liði Göppingen en liðið er með 15 stig í fjórða sætinu, sjö stigum minna en topplið Magdeburg.

Þá skoraði Elvar Örn Jónsson fjögur mörk fyrir Melsungen þegar liðið vann eins marks heimasigur gegn Rhein-Neckar Löwen, 25:24.

Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson komust ekki á blað hjá Melsungen en Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen.

Melsungen er með 14 stig í sjötta sætinu en Rhein-Neckar Löwen er með 12 stig í tólfta sætinu.

Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen.
Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen. AFP
mbl.is