FH hirti toppsætið af Haukum

Egill Magnússon og Darri Aronsson eigast við í leik liðanna …
Egill Magnússon og Darri Aronsson eigast við í leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH er komið á toppinn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, eftir að hafa unnið frækinn 28:24 sigur á nágrönnum sínum og erkifjendum í Haukum í Kaplakrika í kvöld. Phil Döhler í marki FH fór á kostum og varði 20 skot.

Eins og við mátti búast var gífurlegt jafnræði með liðunum til að byrja með. Liðin skiptust á að ná eins marks forystu en eftir að Haukar komust í 7:8 tókst þeim ekki að skora um nokkurra mínútna skeið.

FH skoraði á meðan þrjú mörk og náði tveggja marka forystu, 10:8, í fyrsta sinn í leiknum. Haukar brugðust hins vegar við því með því að skora næstu þrjú mörk og náðu þannig eins marks forystu, 10:11.

Sveiflurnar voru ekki hættar og komst FH í 14:12 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Heimamönnum tókst að halda tveggja marka forystunni og staðan í leikhléi 16:14, FH-ingum í vil.

Döhler var í feiknaformi í hálfleiknum og varði níu skot, þar á meðal laglega frá Brynjólfi Snæ Brynjólfssyni á lokasekúndunni.

Haukar hófu síðari hálfleikinn af krafti og náðu að jafna metin í 19:19. Eftir það skellti Döhler hins vegar í lás og varði hvert skotið á fætur öðru.

Á meðan bættu FH-ingar jafnt og þétt í og komust í fimm marka forystu, 24:19.

Haukar reyndu hvað þeir gátu að laga stöðuna en komust næst þremur mörkum frá FH-ingum, sem unnu að lokum sanngjarnan fjögurra marka sigur.

Döhler átti sem áður segir stórleik í marki FH og varði 20 af þeim 43 skotum sem hann fékk á sig og var því með 46,5 prósent vörslu samtals.

Ótrúlegur sex mínútna kafli í síðari hálfleik þar sem hann varði átta skot var ein stærsta ástæðan fyrir góðum sigri heimamanna, enda náði FH fimm marka forystu á þessum kafla og leit ekki til baka eftir það.

Fyrirliðinn Ásbjörn Friðriksson reyndist FH-ingum drjúgur og skoraði 10 mörk, þar af fimm af vítapunktinum. Var hann markahæstur í leiknum.

Aron Rafn Eðvarðsson í marki Hauka átti góðan leik í marki Hauka. Varði hann 15 skot af þeim 42 sem hann fékk á sig, sem er tæplega 36 prósent markvarsla.

Brynjólfur Snær var markahæstur Hauka með fimm mörk, þar af fjögur úr vítaköstum.

FH hefur með sigrinum sætaskipti við Hauka og er á toppi deildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki. Haukar eru í öðru sæti með 16 stig eftir jafnmarga leiki.

FH 28:24 Haukar opna loka
60. mín. Aron Rafn Eðvarðsson (Haukar) varði skot Ver frá Jakob Martin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert