Guðjón Valur framlengdi um þrjú ár

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þýska handknattleiksfélagið Gummersbach skýrði frá því í kvöld að samningur Guðjóns Vals Sigurðssonar sem þjálfara liðsins hefði verið framlengdur um þrjú ár, eða til ársins 2025.

Guðjón er á sínu öðru tímabili með liðið en eins og sagt var frá fyrr í kvöld er liðið með fjögurra stiga forystu á toppi B-deildarinnar eftir sigur á Bietigheim, 32.25.

„Ég er virkilega ánægður með að Goggi hafi framlengt samning sinn um þrjú ár. Þetta er gríðarlega mikil yfirlýsing fyrir félagið," sagði Christoph Schindler framkvæmdastjóri Gummersbach á vef félagsins í kvöld.

„Fyrir mig og mína fjölskyldu var mjög rökrétt að vera hérna áfram og við erum ánægð með að það skyldi ganga upp. Okkur líður mjög vel hérna," sagði Guðjón Valur á heimasíðunni.

„Ég er afar ánægður með samvinnuna með leikmönnunum, með þjálfarateyminu, sem og með Christoph ög öllum sem vinna fyrir félagið. Mér finnst allt saman vera eins og það á að vera. Við erum með góðan leikmannahóp og vona að við eigum eftir að fagna saman mörgum sigrum," sagði Guðjón Valur.

mbl.is