Ólafur á toppnum í Meistaradeildinni

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Guðmundsson og félagar í franska liðinu Montpellier eru með þriggja stiga forskot á toppi A-riðils Meistaradeildar karla í handknattleik eftir sigur á Zagreb frá Króatíu í hörkuleik í kvöld, 24:23.

Montpellier var með undirtökin lengst af og náði fimm marka forskoti í seinni hálfleik en tókst aldrei að hrista Króatana af sér. Þeir minnkuðu muninn í 22:21 og 23:22. Svíinn Karl Wallinius kom Montpellier í 24:22 en Ivan Cupic átti lokaorðið fyrir Zagreb.

Ólafur skoraði tvö mörk fyrir  Montpellier í leiknum en Wallinius var markahæstur með 5 mörk. Cupic var markahæstur hjá Zagreb með fimm mörk.

Danska liðið Aalborg komst í annað sæti riðilsins með því að sigra Pick Szeged frá Ungverjalandi, 34:30, í Álaborg, en bæði liðin eru með 12 stig. Aron Pálmarsson lék ekki með Aalborg vegna meiðsla en Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins.

Norska liðið Elverum tapaði heima fyrir Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi í sama riðli, 32:33. Orri Freyr Þorkelsson náði ekki að skora fyrir Elverum sem er með 8 stig í fimmta sæti riðilsins. Meshkov vann sinn fyrsta leik og er í áttunda og neðsta sæti með 3 stig.

Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg sem steinlá gegn  Motor Zaporozhye í Úkraínu, 31:22. Flensburg er með 7 stig í sjötta sætinu í B-riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert