Aron ekki í leikbann

Aron Rafn Eðvarðsson þarf ekki að taka út leikbann í …
Aron Rafn Eðvarðsson þarf ekki að taka út leikbann í Evrópubikar karla á morgun. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður handknattleiksliðs Hauka, tekur ekki út leikbann í síðari leik liðsins gegn rúmenska liðinu Focsani í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla á morgun eftir að hafa verið útilokaður frá þátttöku í fyrri leiknum.

Aron Rafn skellti þá hurð of harkalega að mati dómara og var útilokaður frá þátttöku í síðari hálfleik.

Haukar sendu evrópska handknattleikssambandinu, EHF, sterk andmæli í greinargerð vegna málsins og féllst aganefnd á rök Hafnarfjarðarliðsins.

Í samtali við Handbolta.is staðfesti Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, þessi tíðindi og sagði þar að Aron Rafn hafi að lokum fengið aðvörun en ekki leikbann vegna atviksins.

Hann er því klár í slaginn þegar Haukar freista þess að snúa við tveggja marka tapi úr fyrri leiknum síðastliðinn laugardag í Rúmeníu.

Leikurinn að Ásvöllum hefst klukkan 16.00 á morgun og verður frítt inn á hann. Framvísa þarf neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi við kórónuveirunni til þess að komast inn.

mbl.is