Grétar með stórleik í sigri

Grétar Ari Guðjónsson teygir fyrir landsliðsæfingu á dögunum.
Grétar Ari Guðjónsson teygir fyrir landsliðsæfingu á dögunum. mbl.is/Unnur Karen

Grétar Ari Guðjónsson fór á kostum í marki Nice þegar liðið vann sterkan 25:22 sigur á Valence á útivelli í frönsku B-deildinni í handknattleik karla í kvöld.

Grétar Ari varði 15 af þeim 37 skotum sem hann fékk á sig, sem er tæplega 41 prósent markvarsla.

Sigurinn var kærkominn þar sem Nice fer upp um eitt sæti, úr því tíunda í það níunda, en er með jafnmörg stig, 12 talsins, og Pontault, Massere og Billere í 6. til 8. sæti og tveimur stigum á eftir Selestat í fimmta sætinu.

Sæti 3 til 6 eru umspilssæti um sæti í efstu deild og Nice því á fínu róli þar sem það freistar þess að ná einu þeirra.

mbl.is