Fyrsta stig HK kom í Eyjum – Selfoss vann Val

Einar Bragi Aðalsteinsson fór á kostum fyrir HK.
Einar Bragi Aðalsteinsson fór á kostum fyrir HK. mbl.is/Árni Sæberg

HK náði óvænt í sitt fyrsta stig í Olísdeild karla í handbolta í dag er liðið gerði 39:39-jafntefli við ÍBV á útivelli.

HK-ingar voru nálægt því að fara með sigur af hólmi því liðið var með 39:37-forskot þegar skammt var eftir. ÍBV skoraði tvö síðustu mörkin og kom í veg fyrir tap.

HK byrjaði betur og var með forystuna framan af en góður kafli undir lok fyrri hálfleiks hjá ÍBV gerði það að verkum að staðan í hálfleik var 20:15. ÍBV var áfram skrefinu á undan í byrjun seinni hálfleiks en um miðbik hans jafnaði HK í 26:26 og var lokakaflinn æsispennandi.

Einar Bragi Aðalsteinsson fór á kostum fyrir HK og skoraði 15 mörk. Sigurður Jefferson Guarino bætti við sjö. Kári Kristján Kristjánsson og Dagur Arnarsson gerðu sex mörk hvor fyrir ÍBV.

Selfoss gerði afar góða ferð í Hlíðarnar og vann Val, 28:26. Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 6:6 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Selfoss var sterkari í lok fyrri hálfleiks og voru hálfleikstölur 14:12, Selfossi í vil.

Valur jafnaði í 19:19 en Selfoss komst í kjölfarið í 24:20 og tókst Valsmönnum ekki að jafna eftir það.

Alexander Már Egan skoraði sex mörk fyrir Selfoss og Richard Sæþór Sigurðsson gerði fimm. Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex fyrir Val og Tjörvi Týr Gíslason fjögur.

mbl.is