Fjórtán mörk Óðins Þórs í mikilvægum sigri KA 

Óðinn Þór Ríkharðsson skorar eitt marka sinna í leiknum í …
Óðinn Þór Ríkharðsson skorar eitt marka sinna í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hið óútreiknanlega lið Gróttu heimsótti KA í Olís-deild karla í handbolta í dag. Grótta var m.a. búið að leggja bæði ÍBV og Stjörnuna og var stigi ofan við KA í deildinni fyrir leik. Liðin voru í 9. og 10. sæti  með sjö og sex stig.

Heimir Örn Árnason var mættur í þjálfarateymi KA og virtist það hafa góð áhrif á heimamenn, sem voru á allt öðrum stað í töflunni en þeir höfðu ætlað sér fyrir mót. 

Eftir mjög spennandi lokakafla þá voru það gulklæddir KA-menn sem fögnuðu sigri. Leiknum lauk 31:29 og lyftu KA-menn sér upp í níunda sætið með sigrinum. 

KA-menn byrjuðu leikinn af krafti og raðaði Óðinn Þór Ríkharðsson inn mörkum á meðan KA byggði upp sjö marka forskot. KA komst í 11:4 en þá loks fóru Gróttumenn að taka við sér. Vörn þeirra þéttist svo um munaði og KA missti aðeins dampinn en hélt þó ágætu forskoti. Þegar lokamínúta fyrri hálfleiks gekk í garð stóð 15:10 fyrir KA. Grótta setti tvö snögg mörk á KA og minnkaði muninn í 15:12 fyrir hlé. Óðinn Þór hafði skorað sjö af mörkum KA í fyrri hálfleiknum. Nicholas Satchwell virtist loks búinn að finna fjölina sína í marki KA og varði hann níu skot í fyrri hálfleiknum. 

Gróttumenn voru alltaf líklegir til að éta upp muninn á liðunum en þeir voru að flýta sér full mikið og KA nýtti sér það. Um miðjan hálfleikinn virtist KA loks ætla að stinga af í stöðunni 24:18. Gróttumenn voru nýbúnir að klúðra tveimur skotum yfir endilangan völlinn og stemningin var öll KA-megin. Þá tók við hörkukafli þar sem Grótta minnkaði muninn í 24:21 og eftir það var gríðarleg spenna í leiknum og mikil barátta allt til loka. Grótta minnkaði muninn tvívegis í eitt mark en komst ekki lengra og KA átti ágætan lokakafla, þrátt fyrir að hafa misst mann af velli með brottvísun þegar stutt var eftir. Heimamenn héldu haus og lönduðu gríðarlega mikilvægum sigri 31:29. 

Óðinn Þór Ríkharðsson var skuggalegur í leiknum en hann skoraði heil fjórtán mörk  og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Einar Baldvin Baldvinsson varði vel fyrir Gróttu í seinni hálfleiknum en hann klúðraði tveimur skotum yfir endilangan völlinn um miðjan seinni hálfleikinn. Lúðvík Thorberg Arnkelsson og Sveinn Brynjar Agnarsson áttu báðir góðan seinni hálfleik hjá Gróttu en í dag dugði það ekki. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 31:29 Grótta opna loka
60. mín. Jakob Ingi Stefánsson (Grótta) skoraði mark
mbl.is