Stjarnan marði nýliðana

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan lenti í miklum vandræðum með nýliða Víkings úr Reykjavík þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld. Stjarnan hafði að lokum 31:30 sigur.

Gestirnir úr Garðabænum fóru betur af stað og leiddu mest með þremur mörkum í fyrri hálfleik.

Eftir að hafa komist í 10:7 um miðjan hálfleikinn og haldið þeirr forystu um skeið með því að komast í 14:11 tóku heimamenn í Víkingi vel við sér og jöfnuðu metin í 14:14.

Staðan var jöfn, 15:15, í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik komst Víkingur í forystu í fyrsta skipti í leiknum, og náði raunar tveggja marka forystu, 16:18.

Víkingur hélt tveggja marka forystu um stund og komst í 20:22. Stjörnumenn unnu sig þá aftur inn í leikinn og komust einu marki yfir, 24:23.

Það sem eftir lifði leiks var allt í járnum þar sem Víkingur jafnaði metin og Stjörnumenn komust einu marki yfir, eða allt þar til Stjarnan komst í 31:29 undir blálokin.

Víkingur skoraði síðasta markið en eins marks sigur Stjörnunnar staðreynd.

Hafþór Már Vignisson og Leó Snær Pétursson voru markahæstir í liði Stjörnunnar, báðir með sjö mörk.

Brynjar Darri Baldursson kom sterkur inn í markið hjá Stjörnunni og varði átta af þeim 17 skotum sem hann fékk á sig, sem er 47,1 prósent markvarsla.

Arnar Steinn Arnarsson var markahæstur Víkinga með sex mörk.

Stjarnan fer með sigrinum upp fyrir Val í fjórða sætið en Valur á þó leik til góða og getur með sigri í honum farið alla leið upp í annað sætið.

Víkingur situr enn í næstneðsta sæti, 11. sæti, með tvö stig.

mbl.is