„Þetta er bara einn stór skóli“

Arnar Daði Arnarsson á hliðarlínunni í dag.
Arnar Daði Arnarsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari  Gróttumanna í Olísdeildinni í handbolta, var sá og svekktur en jafnframt stoltur eftir að Grótta hafði tapað 31:29 gegn KA í dag. Arnar Daði var fenginn í viðtal eftir leik og var strax minntur á slaka byrjun Gróttu í leiknum. 

Þegar upp er staðið þá má segja að slæm byrjun ykkar í leiknum hafi orðið ykkur að falli en KA var með 11:4 forskot um miðjan fyrri hálfleikinn. 

„Já, slæm færanýting í fyrri hálfleik fer með þennan leik. Þetta er ekki flókin leikgreining. Það er algjörlega ljóst að færanýtingin hjá okkur fer með leikinn.“ 

En þrátt fyrir þessa byrjun þá voruð þið í góðum séns á að fá eitthvað út úr leiknum þegar stutt var eftir. Það sást vel á ykkar liði að það var aldrei nein uppgjöf og greinilega mikil trú á að þið gætuð komið til baka. Það vantaði eitthvað örlítið í restina. 

„Alveg klárlega og þetta er hárrétt. Karakterinn í liðinu er mikill og það sem ég er einna stoltastur af í starfi mínu er hvað það er bullandi mikill karakter í þessum strákum, karakter sem þeir sýna í hverjum einasta leik. Ég hef verið að impra á því við mína menn að leikurinn er sextíu mínútur og það er enginn að fara að vorkenna þeim þegar þeir eru langt undir. Þá verða menn bara að djöflast meira og bæta sína stöðu. Strákarnir virða hverja einustu mínútu. Þeir fara í hverja einustu sókn til að skora og berjast. Það var töluvert mótlæti í dag og það getur verið erfitt að höndla það þegar illa gengur og menn eru ekki að skora úr dauðafærum. Mér fannst við gera nóg til að jafna metin hérna en þá fáum við á okkur, að mér sýnist, glórulausan dóm fyrir ólöglega blokkeringu og Gunnar Dan er kominn einn í gegn. Þá voru fjórar mínútur eftir og mig langar ekki að hugsa það hvernig leikurinn hafði getað farið ef við hefðum jafnað þá. Mér fannst mómentið vera með okkur.“ 

Það var bara þannig allan seinni hálfleikinn að þið voruð alveg að fara að ná KA en þá kom smá bakslag. Þetta gerðist trekk í trekk en þið hélduð áfram og áttuð séns þar til rétt í blálokin. 

„Það er hárrétt. Við hefðum getað farið þá leið að slappa bara af og tapa með átta mörkum. Þá hefði þetta ekki orðið jafn svekkjandi. Við veljum það að fara þessa leið, að djöflast og djöflast og uppskera kannski eitthvað. Í dag er svekkelsið gríðarlega mikið. Næst þegar við lendum í svona leik á klárum við vonandi dæmið. Við eigum að læra af svona leikjum. Við erum bara allir í skóla. Ég er í skóla og strákarnir líka. Margir eru bara að læra að spila í meistaraflokki og læra að taka ábyrgð á stórum augnablikum. Þetta er bara einn stór skóli. Ég sagði við strákana að þeir geti verið aldeilis svekktir en líka að þeir verði að taka einhvern lærdóm úr þessum leik.“ 

En þú sem þjálfari. Finnst þér gaman að vera með svona hóp. Þú segir að þetta sé skóli og mikill lærdómur framundan. 

„Ég get nú ekki talað af mikilli reynslu. Þetta er þriðja árið mitt í meistaraflokksþjálfun og bara annað árið í efstu deild og annað árið með Gróttu. Ég gæti alveg verið ófaglegur og þá væru þessir strákar bara mínir bestu vinir en ég reyni að halda ákveðinni fjarlægð. En ég myndi ekki vilja þjálfa neitt annað lið eins og staðan er í dag. Við erum fáránlega skynsamir, ráðum kannski ekki fullkomlega því að stjórna færanýtingunni en hvernig menn fara eftir leikskipulaginu, bæði í vörn og sókn og bara í öllu. Það eru fáir sem gera þetta betur, sýnist mér, þannig að ég get ekki verið annað en stoltur af þessu liði.“ 

Þetta er skemmtilegt lið og þegar rýnt er í leikmannalistann þá er ekki mikil reynsla í þessum strákum. Það er einna helst Einar Baldvin Baldvinsson sem er þekktur úr bransanum. 

„Ég og Maksim erum bara að reyna að búa til nöfn og betri leikmenn. Ef við tökum sem dæmi Birgi Stein, sem var frábær á síðasta tímabili og hefur verið mikilvægur núna. Hversu mikið vissu menn um hann fyrir einu og hálfu ári síðan? Við erum bara að reyna að búa til fleiri leikmenn fyrir framtíðina hjá Gróttu. Vonandi getum við það og vonandi getum við haldið þeim sem lengst, en ef ekki þá verð ég bara stoltur af þeim, hvar sem þeir verða í framtíðinni“ sagði  þjálfarinn öflugi að lokum. 

mbl.is