Forsetinn svarar gagnrýnisröddum

Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins.
Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins. AFP

Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, hefur varið þá ákvörðun sambandsins að fjölga keppnisþjóðum á HM kvenna úr 24 í 32.

Riðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna, sem nú stendur yfir á Spáni, hefur ekki verið neitt sérstaklega spennandi en Evrópuþjóðirnar hafa haft mikla yfirburð gegn andstæðingum sínum frá öðrum heimsálfum og hafa verið að vinna 30-40 marka sigra.

Margir hafa gagnrýnt þá ákvörðun IHF að fjölga keppnisþjóðunum á heimsmeistaramótinu enda viðrast leikir mun ójafnari nú en undanfarin ár.

„Þegar ég tók við forsetaembætti IHF um aldamótin þá voru Evrópuþjóðirnar langsterkastar en í dag eru sterkar handboltaþjóðir í öllum heimsálfum,“ sagði Moustafa.

„Brasilía tapaði öllum leikjum sínum stórt á sínum fyrstu heimsmeistaramótum en svo unnu þær mótið árið 2013. Það er hins vegar þannig að við erum alltaf að horfa fram í tímann og þó það séu 32 lið á HM núna þá þarf það ekki að vera að það verði alltaf þannig.

Við munum hins vegar ekki fara aftur í svokallaða A- og B-keppni, það er fullreynt að mínu mati. Við munum skoða stöðuna eftir þetta mót og kannski fækkum við aftur liðum í 24, hver veit?“ bætti forsetinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert