Landsliðsmaður framlengdi í Magdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson gekk til liðs við Magdeburg í janúar …
Gísli Þorgeir Kristjánsson gekk til liðs við Magdeburg í janúar 2020. AFP

Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur framlengt samning sinn við þýska handknattleiksfélagið Magdeburg til ársins 2025. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Gísli, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Magdeburg frá Kiel í janúar 2020 en hann missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla á öxl.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Gísli verið afar óheppinn með meiðsli á sínum ferli en hann hefur komið við sögu í tólf leikjum með Magdeburg á tímabilinu og skorað í þeim 24 mörk.

Magdeburg hefur farið á kostum á tímabilinu til þessa en liðið er með fullt hús stiga eða 26 stig á toppi þýsku 1. deildarinnar eftir fyrstu þrettán umferðirnar.

Gísli Þorgeir hefur verið fastamaður í íslenska landsliðshópnum undanfarin ár, þegar hann hefur verið heill heilsu, en hann er í 35 manna æfingahóp liðsins fyrir lokakeppni EM 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.

mbl.is