Angóla situr eftir

Slóvenía sem lék á Ásvöllum gegn Íslandi síðasta vetur er …
Slóvenía sem lék á Ásvöllum gegn Íslandi síðasta vetur er komið áfram. AFP

Ljóst er að Angóla á ekki möguleika á að komast í milliriðil á HM kvenna í handknattleik á Spáni eftir að hafa gert jafntefli gegn Slóveníu í dag. 

Í dag fékkst úr því skorið hvaða lið komast ekki áfram í milliriðil úr A, B, C og D-riðlinum á HM en þrjú efstu liðin í hverjum riðli komast áfram en neðstu liðin leika um sæti 25. - 32. 

Angóla og Slóvenía skildu jöfn 25:25 í A-riðlinum en síðar í kvöld mætast Frakkland og Svartfjallaland. Angóla fékk þar með eitt stig í riðlinum og leikur um Forsetabikarinn eða sæti 25. - 32. Slóvenía er með 3 stig en liðið sló Ísland út í undankeppninni. Frakklar eru með 4 stig sem stendur og Svartfjallaland er með tvö stig. Lið Angóla er ekki hátt skrifað í karlaflokki en kvennaliði Angóla hefur oft gengið vel á HM og hefur tvívegis verið á meðal átta efstu í keppninni. 

Pólland vann Kamerún í B-riðli 33:19 og Pólverjar komast þar með áfram ásamt Serbum og Rússum en Kamerún leikur um Forsetabikarinn. 

Kasakstan vann Íran 31:25 í C-riðli og með því skilur Kasakstan lið Írans eftir á botni riðilsins stigalaust. Noregur og Rúmenía eru þegar komin áfram og mætast í kvöld. 

Púerto Ríkó sigraði Úsbekistan 30:24 í D-riðli og kemst áfram en Úsbekistan hafnaði í neðsta sæti og leikur um Forsetabikarinn eins og önnur lið í neðstu sætum. Holland og Svíþjóð voru þegar komin áfram og mætast í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert