Gáfu leikinn vegna anna í háskólanum

Fjölnismenn taka ekki þátt í bikarkeppninni í ár.
Fjölnismenn taka ekki þátt í bikarkeppninni í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur ákveðið að draga karlalið sitt úr bikarkeppni HSÍ, Coca-Cola bikarnum, vegna prófatarna í háskólunum. Þetta tilkynnti félagið á facebook-síðu sinni.

Fjölnir átti að mæta Herði frá Ísafirði hinn 14. desember á Ísafirði í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar en nú er ljóst að Ísfirðingar eru komnir áfram í sextán-liða úrslitin.

Okkur þykir það miður að ekki hafi verið hægt að færa leikinn á aðra dagsetningu, þótt ítrekað hafi verið reynt,“ segir í tilkynningu Fjölnismanna.

Lið Fjölnis er ungt og meirihluti leikmanna liðsins í háskólanámi meðfram handboltanum. Við höfum hvatt leikmenn liðsins að mennta sig og reynt að skapa þannig umhverfi að það sé hægt.

Settur leikur er í miðri próftörn og sjáum við okkur því miður ekki fært að mæta að þessu sinni,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Fjölnir leikur í 1. deildinni, Grill 66-deildinni, og er með 12 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir átta umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert