Sigrar hjá Króatíu og Suður-Kóreu

Ana Turk og samherjar hennar í króatíska liðinu fögnuðu sigri …
Ana Turk og samherjar hennar í króatíska liðinu fögnuðu sigri í dag. Ljósmynd/IHF

Keppni í milliriðlum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á Spáni er hafin og tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið.

Króatía sigraði Argentínu 28:22 í fjórða milliriðli og fékk þar með sín fyrstu stig en króatíska liðið tók tvo tapleiki með sér úr undanriðlinum. Argentína var hinsvegar fyrir með tvö stig eftir sigur á Austurríki. Þjóðverjar mæta Kongó og Danir mæta Ungverjum í þessum riðli síðar í dag.

Stela Posavec skoraði 8 mörk fyrir Króatíu en Luciana Mendoza og Malena Cavao 5 mörk hvor fyrir Argentínu.

Suður-Kórea vann Tékkland mjög örugglega, 32:26, í þriðja milliriðli og er þá með 4 stig eftir að hafa tekið einn sigur og eitt tap með sér áfram. Tékkar eru nú án stiga eftir þrjá leiki. Síðar í dag leikur Brasilía við Austurríki og Spánn við Japan í þessum riðli.

Jinyi Kim skoraði 8 mörk fyrir Suður-Kóreu og Migyeong Lee 7 en Charlotte Cholevova skoraði 6 mörk fyrir Tékka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert