Gamla ljósmyndin: Sá fyrsti sem stýrði Kiel

Morgunblaðið/Gunnlaugur Rögnvaldsson.

Ísland á ekki bara leikmenn, þjálfara og dómara á EM karla í handknattleik í Ungverjalandi og Slóvakíu í dag því Jóhann Ingi Gunnarsson fyrrverandi landsliðsþjálfari hefur einnig aðkomu að motinu.

Jóhann Ingi sem er menntaður sálfræðingur eins og margir vita sá um andlegan undirbúning þeirra sem annast dómgæsluna í mótinu. Jóhann Ingi er ekki blautur á bak við eyrun í því þar sem hann hann innir starfið af hengi á sjötta Evrópumótinu í röð eða frá árinu 2012.

Jóhann Ingi náði mjög langt í þjálfun á meðan hann hafði þann feril í forgrunni. Hann þjálfaði mörg landslið fyrir HSÍ og varð landsliðsþjálfari ungur að árum 1978-1980. Jóhann þjálfaði síðar þýska stórliðið Kiel frá 1982-1986 og Essen frá 1986 til 1988.

Alfreð Gíslason var því ekki fyrsti Íslendingurinn til að stýra Kiel eins og einhverjir gætu haldið en Alfreð lék undir stjórn Jóhanns hjá Essen og síðar hjá KR eitt keppnistímabil.

Jóhann Ingi var valinn handboltaþjálfari ársins í V-Þýskalandi árið 1986 og undir hans stjórn varð Essen meistari 1987. Jóhann þjálfaði Hauka árið 1993 þegar liðið komast í úrslit Íslandsmótsins en Haukum hafði þá tekist að byggja upp sterkt lið eftir fremur mögur ár.

Eftir það hefur hann lagt áherslu á annað en handboltaþjálfun en hefur þó ekki verið langt undan í handboltahreyfingunni.

Meðfylgjandi mynd tók Gunnlaugur Rögnvaldsson fyrir Morgunblaðið um miðjan níunda áratuginn af Jóhanni Inga þegar hann var þjálfari THW Kiel.

mbl.is