Hverjir gætu snúið aftur á morgun?

Gísli Þorgeir Kristjánsson verður að öllum líkindum klár í slaginn …
Gísli Þorgeir Kristjánsson verður að öllum líkindum klár í slaginn gegn Noregi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Í gær misstu alls átta leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta af stórsigrinum gegn Svartfjallalandi í lokaleik liðanna í milliriðli 1 á EM 2022 vegna þess að þeir voru í einangrun á hótelherbergjum sínum í Búdapest eftir að hafa smitast af kórónuveirunni.

Af þessum átta leikmönnum gæti Ísland endurheimt allt að fimm þeirra þegar liðið mætir Noregi í leiknum um fimmta sætið á morgun.

Leikmenn sem skila jákvæðri niðurstöðu þurfa að dvelja í einangrun í að minnsta kosti fimm daga, skila tveimur neikvæðum niðurstöðum úr skimunum og uppfylla fleiri skilyrði.

Fastlega er búist við því að Ólafur Andrés Guðmundsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson snúi aftur á morgun. Þeir voru á meðal þeirra fyrstu sem smituðust, 20. og 21. janúar, en uppfylltu þrátt fyrir það ekki skilyrði til þess að spila í 34:24-sigrinum gegn Svartfjallalandi í gær.

Arnar Freyr Arnarsson og Janus Daði Smárason greindust þann 22. janúar og gætu því losnað úr einangrun í dag. Daníel Þór Ingason greindist svo 23. janúar og á því einnig möguleika á að fá grænt ljós til þess að spila á morgun.

Vignir Stefánsson greindist þann 24. janúar og þeir Elliði Snær Viðarsson og Björgvin Páll Gústavsson degi síðar,  sá síðarnefndi í annað sinn á meðan mótinu stendur. Allir þrír munu því ekki geta tekið þátt í leiknum gegn Noregi á morgun.

Leikur Noregs og Íslands hefst klukkan 14.30 á morgun, föstudaginn 28. janúar.

mbl.is