Rétt ákvörðun að fara ekki á EM í Búdapest

Haukur Þrastarson brýst í gegnum vörn Norðmanna á EM 2020 …
Haukur Þrastarson brýst í gegnum vörn Norðmanna á EM 2020 í Malmö. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Haukur Þrastarson, landsliðsmaður í handknattleik, er að ná vopnum sínum eftir erfiða tíma vegna krossbandsslits.

Haukur hefur misst töluvert úr vegna meiðslanna og má þar nefna síðustu tvö stórmót hjá landsliðinu, HM í Egyptalandi og EM í Ungverjalandi. Haukur gerði langtímasamning við pólska stórliðið Kielce og er með samning þar til ársins 2025.

Ekki er heiglum hent að komast í liðið hjá Kielce og fyrst Haukur er farinn að spila með liðinu á ný, þá er hann á réttri leið. Hann skoraði til að mynd tvö mörk og gaf eina stoðsendingu gegn ungverska stórliðinu Veszprém í Meistaradeildinni á dögunum. Þegar Morgunblaðið hafði samband við Hauk í gær sagðist hann ekki vera kominn í sitt gamla góða form en sé nú mun betur á sig kominn en fyrir áramót.

„Ég hef spilað töluvert og persónulega hefur mér gengið vel. Ég er töluvert betri í hnénu eftir þessa pásu sem ég fékk frá leikjum og hefðbundnum æfingum í janúar. Ég nýtti tímann mjög vel heima á Selfossi í janúar í meðhöndlun og til að byggja mig upp í styrk. Mér tókst að nýta timann í desember og janúar mjög vel. Fyrir vikið hef ég verið mun betri í hnénu eftir að ég kom aftur út til Póllands og mér hefur gengið betur á vellinum. Ég finn mig betur með hverri vikunni sem líður,“ segir Haukur og þegar hann horfir til baka finnur hann að heilsan var ekki nægilega góð fyrir áramót. Hann var ekki nógu góður í hnénu en tók þátt í leikjum með Kielce og æfði minna fyrir vikið.

„Ég er ekki laus við hnémeiðslin vegna þess að maður veit alltaf af þeim. Það er ýmislegt sem fylgir þessu. Maður er í rauninni með hugann við það allan daginn að fara vel með sig til að ná að æfa vel og spila. Nú er spilað tvisvar í viku í deildinni og í Meistaradeildinni. Það getur komið fyrir að maður bólgni upp eða eitthvað slíkt og það má segja að það sé dagamunur á manni. Ég er ekki kominn í mitt fyrra form en mér finnst ég vera að nálgast það. Þegar maður spilar ekki í eitt ár þá tekur tíma að finna taktinn aftur og það er eðlilegt."

Viðtalið við Hauk í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert