Gamla ljósmyndin: Hár Tékki

Morgunblaðið/Þorkell

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Árið 1990 fóru forráðamenn handknattleiksdeildar Hauka óvenjulega leið til að styrkja karlalið félagsins. Þá tókst þeim að fá landsliðsmann Tékkóslóvakíu, Petr Baumruk, til að flytja til Íslands og semja við Hauka. Á þeim tíma þegar svo margt var að breytast í austurhluta Evrópu en Tékkóslóvakía skiptist síðar upp í Tékkland og Slóvakíu. „Hávaxinn og svipmikinn leikmann“ eins og honum var einhverju sinni lýst í Morgunblaðinu. 

Ég lék með tékkneska landsliðinu í Laugardalshöllinni árið 1988 og eftir þá leiki settu Haukarnir sig í samband við mig. Mér leist ekkert allt of vel á að flytja til Íslands en Haukarnir gáfust ekki upp. Þeir héldu áfram að hringja í mig og tveimur árum síðar kom Viggó Sigurðsson, sem þá þjálfaði Hauka, ásamt stjórnarmönnum út til Prag og gengu frá samningi við mig,“ sagði Petr í samtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu árið 2000.

Þessi ákvörðun átti eftir að skipta miklu máli fyrir Haukaliðið en á níunda áratugnum hafði liðið ekki látið mikið að sér kveða. Liðið fór í úrslit Íslandsmótsins gegn Val árið 1994 eftir að hafa orðið deildameistari og varð bikarmeistari árið 1997. Árið 2000, eða áratug eftir að Petr Baumruk gekk í raðir Hauka, varð liðið Íslandsmeistari. Haukar höfðu ekki orðið Íslandsmeistarar karla í handknattleik frá árinu 1943. Baumruk var enn í liðinu árið 2000 og var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins hjá Morgunblaðinu. 

Petr fékk íslenska ríkisborgararétt árið 1996 og býr hér enn ásamt fjölskyldunni. Adam Haukur hefur fylgt í fótspor föðurins og orðið Íslandsmeistari með Haukum. Petr er sjaldnast langt undan hjá Haukum því hann hefur lengi starfað í íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum. Þar verður í dag leikið til úrslita í bikarkeppni HSÍ. Þegar Haukar urðu meistarar árið 2000 léku þeir hins vegar enn heimaleiki sína í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. 

Meðfylgjandi mynd er tekin í Hafnafjarðarslag á milli Hauka og FH í Strandgötunni árið 1993 og birtist í Morgunblaðinu hinn 1. október 1993. Petr Baumruk brýst í gegn vinstra megin á milli bakvarðar og hornamanns eins og hann gerði svo oft. Gunnar Beinteinsson og Óskar Helgason reyna að verjast honum. Myndina tók Þorkell Þorkelsson sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Petr Baumruk var ekki leikmaður sem flakkaði á milli félagsliða. Í heimalandinu lék hann með Dukla Prag og á Íslandi með Haukum. Með Dukla Prag varð hann Evrópumeistari meistaraliða árið 1984 og vann liðið Metaloplastika Sabac í úrslitum, eitt sterkasta lið sögunnar. Hann varð einnig átta sinnum tékkneskur meistari með liðinu. Petr er ólympíufari og mætti Íslandi á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 þegar Ísland og Tékkland gerðu jafntefli. Hann lék einnig með Tékkóslóvakíu á leikunum í Seoul 1988. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert