Hefur stundum gott af því að lenda á vegg

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með HK.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með HK. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef lengi stefnt að því að fara út og ég taldi að þetta væri góður tímapunktur til að taka næsta skref,“ sagði Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskona í handbolta, í samtali við mbl.is. Jóhanna hefur gert þriggja ára samning við sænska félagið Önnered og gengur í raðir þess eftir tímabilið.

„Ég er búin að sýna mig á Íslandi og mér fannst klúbburinn mjög spennandi. Þau sýndu mér mikinn áhuga og þetta er gott tækifæri fyrir mig til að bæta minn leik og verða betri leikmaður,“ bætti Jóhanna við.

Önnered endaði í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð og féll úr leik í átta liða úrslitum í úrslitakeppninni. Félagið ætlar sér stærri hluti á komandi árum og Jóhanna er spennt að vera hluti af þeirri uppbyggingu.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með íslenska U19 ára landsliðinu.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með íslenska U19 ára landsliðinu. Ljósmynd/EHF

„Félagið stefnir hátt og hefur verið að vinna í að styrkja liðið. Mér fannst stefnan þeirra mjög spennandi. Fyrsta markmiðið mitt er að bæta mig sem handboltaleikmann og ég hef trú á því að ef ég held einbeitingu og geri mitt allra besta mun það koma og mér ganga vel úti.“

Erfitt en lærði helling

Hún var aðeins 16 ára gömul þegar hún gekk í raðir Kongsvinger í Noregi. Lék hún fyrst um sinn með U16 ára liði félagsins og síðan aðalliðinu í næstefstu deild norska handboltans.

„Það var sama pælingin. Mig langaði að bæta mig í handbolta og langaði í nýja og góða áskorun. Ég hef alltaf gaman að því að prófa eitthvað nýtt. Eftir eitt ár þar ákvað ég að flytja heim því mig langaði að klára menntaskólann hér og prófa mig í íslensku deildinni. Það reyndist mér vel.

Ég ákvað að fara út þegar ég var 15 ára og fór út 16 ára og var að spila með U16 ára liðinu í Bring-keppni sem er mjög sterkt mót. Mér gekk mjög vel þar og var næstmarkahæst af öllum. Ég var líka að spila með aðalliðinu í 2. deildinni, þar sem byrjunarliðsleikmenn meiddust. Það var svolítið erfitt en maður lærði helling af því. Það fór beint í reynslubankann,“ sagði Jóhanna um Noregsdvölina.

Jóhanna Margrét er komin til Önnered í Svíþjóð.
Jóhanna Margrét er komin til Önnered í Svíþjóð. Ljósmynd/Önnered

Íþrótta- og stjórnmálafjölskylda 

Jóhanna er markadrottning efstu deildar á leiktíðinni með 127 mörk í 21 leik, þrátt fyrir að HK hafi ekki gengið sem skyldi. Liðið er í sjöunda sæti og þarf að fara í umspil við lið úr 1. deild til að halda sæti sínu í deildinni. HK mætir fyrst Gróttu og sigurliðið úr því einvígi mætir annaðhvort ÍR eða FH í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild.

„Það er búið að vera erfitt, sérstaklega eftir áramót. Við mætum með allt sem við getum í umspilið og ætlum okkur að vinna það,“ sagði hún. Jóhanna meiddist illa fyrir tveimur árum þegar hún sleit krossband í hné. „Það var erfitt en mér hefur gengið vel á þessu tímabili. Maður hefur stundum gott að því að lenda á vegg. Þá nýtur maður þess meira þegar vel gengur. Það var erfitt á hliðarlínunni en Covid var í gangi, svo ég missti ekki af of miklu.“

Jóhanna er skírð í höfuðið á ömmu sinni Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var forsætisráðherra frá 2009 til 2013 og þingmaður samfleitt frá 1978 til 2013.  

„Það passar, hún er mamma pabba,“ sagði Jóhanna. Þá er hún náfrænka Martins Hermannssonar, besta körfuboltamanns landsins. „Hann hefur alltaf verið fyrirmyndin og maður lítur mikið upp til hans. Þetta er mikil íþróttafjölskylda því tveir bræður mínir eru líka að spila í Olísdeild karla; Elías Björgvin Sigurðsson með HK og Kristófer Dagur Sigurðsson hjá Fram,“ sagði Jóhanna Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert