Gamla ljósmyndin: Gripinn í landhelgi

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Danski handknattleiksþjálfarinn Ulrik Wilbek hafði lag á því að ýfa fjaðrir íslenskra íþróttaunnenda þegar hann var landsliðsþjálfari Dana. En einnig þegar hann átti að vera hættur sem landsliðsþjálfari Dana. 

Eflaust hafa því einhverjir gaman að þessu ljósmynd þar sem Eggert Jóhannesson ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is til margra ára greip Wilbek í landhelgi í Laugardalshöllinni fyrir tólf árum síðan. 

Karlalandslið Íslands og Danmerkur léku þá vináttulandsleik í Laugardalshöllinni sem lauk með jafntefli eins og svo algengt var hjá þessum liðum á tímabili. Ísland og Danmörk léku tvo vináttuleiki í Laugardalshöllinni í júní 2010. 

Wilbek virðist af einhverjum ástæðum vera kominn inn á völlinn þegar Eggert tók myndina. Það sem verra er að Alexander Petersson er á leið í hraðaupphlaup og horfir aftur fyrir sig til að athuga hvort sendingin sé ekki á leiðinni. Frá þessu sjónarhorni virðist sem Wilbek hefði getað orðið í vegi fyrir Alexander sem gerir myndina enn áhugaverðari.

Alexander Petersson er enn að og leikur með Melsungen en ekki liggur fyrir hverjar fyrirætlanir hans eru næsta vetur. 

Ungi Daninn sem eltir Alexander er enginn annar en Mikkel Hansen einn besti handknattleiksmaður heims sem verður samherji Arons Pálmarssonar hjá Álaborg næsta vetur. Þar er Arnór Atlason aðstoðarþjálfari. 

Fyrir aftan má sjá Sverre Jakobsson sem nú er í þjálfarateymi KA og á varamannabekknum sést Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals. 

Karlalandsliðið í handknattleik verður á ferðinni í dag þegar liðið tekur á móti Austurríki í síðari leik liðanna í umspili fyrir HM 2023. Leikið verður á Ásvöllum þar sem Laugardalshöllin er lokuð vegna viðgerða. Leikurinn verður í beinni lýsingu á mbl.is. 

mbl.is