Þrusuleikur áður en bíó fimm mínúturnar byrja

Sigurður Bragason kemur skilaboðum áleiðis til síns liðs.
Sigurður Bragason kemur skilaboðum áleiðis til síns liðs. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var ánægður með leik sinna kvenna en tap var staðreyndin hjá þeim í kvöld. Mótherjinn var Fram en þær höfðu sigur 18:20 í Vestmannaeyjum. Liðið leiðir því einvígið gegn ÍBV 2:0 og er í lykilstöðu til að komast í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna.

„Þetta var allt annar leikur, ég var rosalega ánægður með leikinn. Sóknarlega var þetta engin tía en ég var stressaður hvernig við myndum mæta eftir þennan skell sem við fengum í Safamýrinni. Ég var ekki viss um hvort trúin væri farin en hvernig við svöruðum andlega þættinum það var alveg til fyrirmyndar,“ sagði Sigurður strax að leik loknum.

„Ég var stoltur af stelpunum, það er ekki auðvelt að tapa með tíu mörkum á móti svona sterku liði og mæta helvíti flottar eftir það. Við erum í þrusuleik þangað til þessar bíó fimm mínútur koma þar sem leikurinn klárast. Elísa er tekin út úr leiknum, það er einn af mínum lykil sóknarmönnum og lykilmaður í vörn, þó að Ólöf hafi komið flott inn,“ sagði Sigurður en hann segir það stórt skarð að fylla sóknarlega að missa Elísu.

„Taktíkin riðlaðist og annað, þetta var rosalega dýrt. Síðan kemur þessi misskilningur, ein sautján ára að koma inn sem misskildi skilaboðin frá Himma og hljóp bara inn á. Ég ætla ekki að fara að erfa það við hana, þetta eru bara mistök, það er frekar útlendingurinn sem fer glórulaust aftan í, þarna hendum við leiknum út um gluggann,“ sagði Sigurður en liðið lék þremur leikmönnum færri í tæpar tvær mínútur.

„Þarna var tveggja marka munur og allt í góðu, svo allt í einu, 6. Þetta voru rosalega dýrar 4 mínútur, katastrófa.“

Hvað gerðu leikmenn ÍBV betur frá síðasta leik?

Elísa Elíasdóttir meiddist í kvöld.
Elísa Elíasdóttir meiddist í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Sóknarleikurinn var miklu, miklu betri í dag, miklu meira flæði í honum og á köflum frábær. Við verðum að skoða það að við brennum af öllum dauðafærum, hornamennirnir eru bara ekki með. Ég ætla ekkert að taka það af þeim að það er ágætismarkvörður, Hafdís er bara geggjuð. Ég verð að koma þessu yfir 20% skotnýtingu, það er ekki meiri munur en 1-2 mörk og þá er þetta hræðilega dýrt. Mér finnst við varnarlega vera með þær, þetta er helst eitthvað hnoð á Steinunni sem þær eru að fá, annars erum við með þær varnarlega og þær sjá ekki markið.“

Sigurður talar um stórbættan sóknarleik, en liðið skoraði einungis 18 mörk, þar af þrjú á síðustu þremur mínútunum eftir að Fram var komið fimm mörkum yfir.

„Við brennum bara af dauðafærum, hvað voru þetta mörg? 8 úr hornunum, Harpa með tvö eða þrjú hraðaupphlaup, tvö víti. Þetta má ekki, ekki í úrslitakeppni og hvað þá á móti svona liði, við verðum að skora. Að halda þeim í 20 mörkum er glæsilegt en að skora 18 er ekki eins gott.

Elísa Elíasdóttir meiddist illa í kvöld er hún skall í gólfið eftir baráttu við Steinunni Björnsdóttur og varnarmenn Fram. Elísa var ekki meira með og fór alblóðug af velli og upp á spítala.

„Auðvitað ætlaði Steinunn ekki að gera eitt eða neitt, ég held að hún hafi skollið svona illa í gólfið. Nú má dæma eftir afleiðingum brots og afleiðingin er klárlega sú að hún er úr leik og mögulega úr úrslitakeppninni, þannig að þarna finnst mér ekki verið að taka tillit til þess. Ég held að það sé í leikreglunum að afleiðingar brots eigi að gilda, hún rotast og fær slæman skurð, það eru slæmar afleiðingar. Steinunn ætlaði sér ekkert og þetta var slys, en slys skiptir engu, reglur eru reglur. Þetta leit illa út en Elísa jafnar sig.“

Eru Eyjakonur úr leik? „Nei, það er ósköp einfalt. Það er enginn úr leik en þetta gerir verkefnið erfiðara, við þurftum einn sigur í Safamýri og nú eru þeir orðnir tveir. Við þurfum að sjá hvernig Elísa er en við gerum allt á fimmtudaginn til að hanga inni, þetta voru framfarir í dag frá fyrsta leik og vonandi næ ég aftur framförum og þá vinnum við þær. Þetta verður samt erfitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert