Byrjuðum seinni hálfleikinn veikt

Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld.
Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var niðurlútur eftir leik sinna manna gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld. Haukar eru úr leik í Íslandsmótinu í handknattleik og það aðeins á undan áætlun. Liðið tapaði 34:27 í Vestmannaeyjum í kvöld og einvíginu samtals 3:1.

„Þetta fór í seinni hálfleik, í fyrsta lagi varnarlega þar sem við vorum ekki nógu þéttir í dag. Við vorum að spila frábæran sóknarleik í fyrri hálfleiknum en við byrjum seinni hálfleikinn veikt. Við vorum ekki nógu harðir varnarlega, fáum auðveld mörk á okkur og mjög fljótlega í seinni hálfleik förum við að gera mistök sem gera það að verkum að við fáum hraðaupphlaup í bakið,“ sagði Aron en hann stóð ekki á svörum um það hvað fór úrskeiðis hjá hans mönnum.

„Þegar ÍBV nær einhverjum fjórum eða fimm mörkum þá ætlum við aðeins að fara að flýta okkur of mikið, sem gerði það að verkum að ÍBV heldur þessu forskoti aðeins. Við förum síðan í 7 á 6, minnkum í þrjú mörk og eigum möguleika á að minnka í tvö, þegar sex mínútur eru eftir, nægur tími. Við klúðruðum því og þá fer þetta frá okkur, tveimur til þremur mörkum undir með fimm eða sex mínútur eftir gerir það að verkum að við tökum mikið af áhættum.“

„Það gerir það að verkum að þetta endar í sjö marka sigri, við vorum að þrýsta sóknarleikinn og fáum mikið af mörkum yfir allan völlinn og svo framvegis. ÍBV voru betri en við í dag.“

Aron var viss um að þetta væri ekki andleysi í hans mönnum sem gerði það að verkum að varnarleikurinn var ekki betri í síðari hálfleik en hafði þetta að segja.

„Ég myndi halda að það væri ekki andleysi í fjórða leik í úrslitakeppninni, þetta var kannski þreyta, menn gefa aðeins eftir, blokkeraðir. Þetta eru bara tvö til fjögur atriði, en það er nóg fyrir mig til að finnast við ekki byrja nægilega harðir seinni hálfleikinn. Við náum því svo upp eftir fimm eða sex mínútur og náum að vera harðari varnarlega. Eins og ég segi þá er spilað þétt og menn gáfu allt í þetta, en við töpuðum bara 3:1 fyrir ÍBV, sem unnu verðskuldað.“

mbl.is