Frábær stemning hér í dag

Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í kvöld.
Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, stýrði sínum mönnum inn í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í kvöld er liðið vann sjö marka sigur á Haukum 34:27. Eyjamenn stungu af um miðjan síðari hálfleik og voru Eyjamenn yfir allan síðari hálfleikinn. Haukar náðu áhlaupi en minnkuðu muninn einungis í þrjú mörk, nær komust þeir ekki.

Sjö marka sigur í kvöld, var það sem liðið stefndi á? „Sigur, já, við vorum ekki með neinar tölur uppi á borðinu. 34 skoruð, er frábært og undir 30 fengin á sig er líka gott, það var margt gott í leiknum.“

Voru strákarnir spenntir að svara fyrir tapið á laugardag? „Já, mér fannst það, við horfðum á síðasta leik og vorum að brjóta okkur aðeins út úr sóknarpælingunum. Við náðum að laga þær í dag og sást það strax í fyrri hálfleiknum, það hélt. Það var einnig frábært að sjá hvað 5-1 vörnin náði að halda, við höfum ekki verið að nota það mikið núna en Ásgeir var frábær fyrir framan.“

Sveinn Jose Rivera í baráttunni í kvöld.
Sveinn Jose Rivera í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn skora 17 mörk í hvorum hálfleik en fá á sig 16 mörk í fyrri á móti 11 í seinni. Hvað löguðu Eyjamenn í hálfleik?

„Það var ekkert að laga neitt, við fengum ferskar fætur inn. Gabríel kom inn, ferskur og Nökkvi kom inn, ferskur. Rúnar var búinn að sitja mikið, ferskur. Elmar og Dagur náðu að skipta aðeins meira í varnarleiknum í seinni hálfleik, við náðum að koma með aðeins meiri ferskleika inn.“

Ef Erlingur lítur yfir einvígið, hver var lykillinn að sigri fyrir liðið? „Vörn, heilt yfir, heimavöllurinn líka. Það var frábær stemning hérna í dag, það að ná að sigra fyrsta leikinn opnaði einvígið upp á gátt.“

Nú keppa Eyjamenn við Val í úrslitaeinvíginu, hvernig sér Erlingur það fara fram? Verður það svipað? „Maður veit aldrei, þeir eru alveg svakalega ferskir og eru besta liðið í dag. Það er okkar að reyna að vinna þá, þeir eru með frábæra unga leikmenn. Framtíðar landsliðsmenn í byrjunarliðsstöðunum í Benedikt, Arnóri og Einari, með Björgvin líka að grýta boltanum fram. Þetta er eitthvað verkefni sem við þurfum að líta yfir.“

Valsliðið er ólíkt Haukaliðinu, Valsmenn með meiri hraða en Haukar með meiri styrk. Er þessi hraði eitthvað sem ÍBV-liðið getur ráðið við? „Já, svo framarlega sem allir eru ferskir, við þurfum að reyna að koma öllum á lappir aftur og nú er bara að fara að greina Val.“

Sigtryggur Daði Rúnarsson lék ekkert í dag og lítið í síðasta leik, er hann úr leik? „Hann er allavega úr leik í þessari viku, ég hefði ekkert viljað fara í einn leik í viðbót. Það hefði orðið eitthvað.“

mbl.is