ÍBV getur tryggt sig í úrslit í kvöld

Rúnar Kárason hefur farið fyrir ÍBV í einvíginu.
Rúnar Kárason hefur farið fyrir ÍBV í einvíginu. mbl.is/Óttar Geirsson

Eyjamenn geta tryggt sig í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta karla í kvöld þegar liðið fær Hauka í heimsókn til Vestmannaeyja í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvígi úrslitakeppninnar.

ÍBV vann fyrsta leik liðanna í Hafnarfirði og annan í Vestmannaeyjum áður en Haukar svöruðu fyrir sig og unnu þriðja leikinn á heimavelli.

Í kvöld fer fram fjórði leikur liðanna og getur ÍBV unnið einvígið. Haukar þurfa sigur ætli þeir sér ekki í sumarfrí, en vinni þeir leikinn mun fara fram oddaleikur í Hafnarfirði.

Rúnar Kárason hefur farið fyrir sínum mönnum í ÍBV í einvíginu á meðan markaskorun hefur dreifst betur hjá Haukaliðinu. Fróðlegt verður að sjá hvernig stórleikur kvöldsins þróast.

mbl.is