Bjarki berst um markakóngstitilinn

Bjarki Már Elísson í leik með Lemgo gegn Val síðasta …
Bjarki Már Elísson í leik með Lemgo gegn Val síðasta haust. mbl.is/Unnur Karen

Bjarki Már Elísson var einu sinni sem oftar markahæsti leikmaður Lemgo í kvöld þegar lið hans vann Rhein-Neckar Löwen í hörkuleik í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 24:23.

Bjarki fór fyrir sínum mönnum og skoraði sjö mörk en með sjöunda markinu kom hann Lemgo í 23:22 á næstsíðustu mínútunni úr vítakasti, eftir að Löwen hafði skorað fjögur mörk í röð og jafnað metin. Ýmir Örn Gíslason náði ekki að skora fyrir Löwen í leiknum. Lemgo er í tíunda sæti deildarinnar og Löwen í því áttunda.

Bjarki hefur nú skorað 196 mörk fyrir Lemgo í deildinni og er næstmarkahæstur, á eftir íslenska Dananum Hans Óttari Lindberg sem hefur fertugur að aldri skorað 201 mark fyrir Füchse Berlín. Þriðji er svo Ómar Ingi Magnússon sem hefur skorað 186 mörk og á leik til góða á Bjarka.

Janus Daði Smárason var markahæstur ásamt öðrum hjá Göppingen með fjögur mörk þegar liðið tapaði dýmætum stigum gegn Hamburg á heimavelli, 24:28, en Göppingen er í harðri baráttu um Evrópusæti. Liðið er í fimmta sæti, sem gefur keppnisrétt í Evrópukeppni, og er tveimur til þremur stigum á undan helstu keppinautunum.

mbl.is